mið 07. mars 2018 21:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meistaradeildin: Frækinn sigur Juventus gegn Tottenham - Basel vann Man City
Juventus sló út Tottenham og fer með Man City í 8-liða úrslit
Juventus sneri við blaðinu með hjálp frá þessum tveimur.
Juventus sneri við blaðinu með hjálp frá þessum tveimur.
Mynd: Getty Images
Basel vann óvænt í Manchester.
Basel vann óvænt í Manchester.
Mynd: Getty Images
Juventus og Manchester City komust í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar í kvöld og bættust þar með í hóp með Liverpool og Real Madrid. Þessi lið verða í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin en í næstu viku kemur það í ljós hver hin fjögur liðin verða.

Juventus sótti Tottenham heim að Wembley og þurfti svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum. Fyrri leikurinn á Ítalíu endaði 2-2 og Juventus þurfti því helst að vinna leikinn í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var langt frá því að vera góður fyrir Juve og var staðan að honum loknum 1-0 fyrir Spurs. Son Heung-min skoraði markið en mikið var rætt um eitt sérstakt atvik á samfélagsmiðlum eftir fyrri hálfleikinn. Leikmenn Juventus urðu brjálaðir eftir að þeir fengu ekki vítaspyrnu en Jan Vertonghen tók Douglas Costa niður í teignum.

Það leit lengi vel út fyrir að Juventus, lið sem komst í úrslitaleikinn í fyrra, væri á leið út úr keppni. Svo fór hins vegar að Juventus setti tvö mörk með stuttu millibili í seinni hálfleiknum og vann leikinn. Gonzalo Higuain og Paulo Dybala skoruðu mörkin.

Harry Kane komst nálægt því að jafna fyrir Tottenham en allt kom fyrir ekki og frækinn sigur Juventus staðreynd.

Með Juventus í 8-liða úrslitin úr hinu einvígi kvöldsins fer Manchester City, sem tapaði þó óvænt gegn Basel, 2-1. Pep Guardiola ákvað að hvíla marga en það er ekki mikil afsökun.

City vann samt einvígið 5-2 og er komið áfram.

Tottenham 1 - 2 Juventus
1-0 Son Heung-Min ('39 )
1-1 Gonzalo Higuain ('64 )
1-2 Paulo Dybala ('67 )

Manchester City 1 - 2 Basel
1-0 Gabriel Jesus ('8 )
1-1 Mohamed Elyounoussi ('17 )
1-2 Michael Lang ('72 )



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner