Liverpool horfir til Frimpong og Kerkez - Man Utd skoðar bakverði - Arsenal hefur átt í viðræðum um Wharton
banner
   fim 07. maí 2015 11:25
Magnús Már Einarsson
Tommy Nielsen: Stórslys ef KA vinnur ekki deildina
Tommy Nielsen.
Tommy Nielsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fjarðabyggð
„Þessi spá er held ég fullkomnlega eðlileg og kemur mér alls ekki á óvart. Ég held að við verðum í hópi 3-4 liða sem reyna að fylgja KA og Víking Ólafsvík eftir," segir Tommy Nielsen þjálfari Grindvíkinga en liðinu er spáð 3. sætinu í 1. deildinni í sumar.

„Markmið okkar er að vera í þessum topp fimm hópi og sjá svo hvaða möguleikar eru fyrir hendi á loka kafla tímabilsins. Það verður erfitt því það eru mjög mörg góð lið í þessari deild."

„Deildin virðist vera mjög jöfn og í raun engin leið að spá í spilin nema þá kannski það að KA á að vinna miðað við liðið sem þeir eru komnir með. Annað væri í raun stórslys. Ég held að liðin sem eru spáð í neðri hlutanum gætu mörg hver endað ofar t.d Fjarðabyggð sem ég tel að verði mun ofar en þeim var spáð. Annars hafa lið eins og Þróttur, HK, Selfoss og Víkingur Ó. hrifið mig í vetur. Það má heldur ekki gleyma stórveldum eins og Fram og Þór sem þekkja þessa baráttu mjög vel."

Stoltur að þjálfa Grindavík
Tommy er í fyrsta skipti að starfa sem aðalþjálfari eftir að hafa verið spilandi aðstoðarþjálfari hjá Fjaraðbyggð.

„Ég hef verið mjög ánægður í nýju starfi en fyrst og fremst stoltur að vera þjálfari Grindvíkur. Strákarnir hafa tekið mjög vel í þá hugmyndafræði sem við Óli Stefán komum með okkur og það er ég mjög ánægður með. Það er bjartsýni og góður andi í hópnum og maður skynjar það sama meðal stuðningsmanna í bæjarfélaginu þannig að maður er mjög spenntur fyrir sumrinu."

Hlakkar til að mæta Fjarðabyggð
Grindavík fær Fjarðabyggð í heimsókn í fyrstu umferðinni í 1. deildinni á laugardag og Tommy er spenntur fyrir þeim leik. Daninn er ánægður með undirbúningstímabilið.

„Við höfum unnið vel og tekið vel á því í allan vetur. Það hafa komið góðir kaflar og það hafa komið slæmir kaflar en við erum hins vegar klárir í fyrsta leik á móti Fjarðabyggð. Ég hlakka sérstaklega til að byrja mótið á mínu gamla félagi úr Fjarðabyggð," sagði Tommy en reiknar hann með frekari liðsstyrk fyrir mót?

„Við erum ánægðir með hópinn sem við erum með enda er hann stór og mjög jafn. Ef það kemur upp að við þurfum leikmann og sá rétti er á lausu þá gætum við tekið hann," sagði Tommy að lokum.
Athugasemdir
banner