Liverpool opið fyrir tilboðum í Nunez - AC Milan vill fá Rashford - Ferguson á blaði hjá West Ham
   þri 07. júní 2016 13:15
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Byrjum þar sem Beckham sá rautt
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Rauða spjaldið sem setti allt á annan endann á Englandi.
Rauða spjaldið sem setti allt á annan endann á Englandi.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Þegar kvikmyndin um David Beckham verður gerð mun eitt magnaðasta atriði hennar klárlega tengjast rauða spjaldinu sem hann fékk þriðjudaginn 30. júní 1998.

Þessi ein frægasta brottvísun fótboltasögunnar kom á HM í Frakklandi og var leikvangurinn Stade Geoffroy-Guichard í Saint-Etienne. Sami leikvangur og mun hýsa fyrsta leik íslenska karlalandsliðsins á stórmóti, leikinn gegn Portúgal eftir viku.

England mætti Argentínu í 16-liða úrslitum en þessar tvær þjóðir hafa háð margar frægar viðureignir á fótboltavellinum.

Beckham var á þessum tíma, 23 ára, orðin stórstjarna og athygli vakti að þáverandi landsliðsþjálfari Englands, Glenn Hoddle, valdi hann ekki í byrjunarliðið fyrstu tvo leiki riðlakeppninnar. Enska pressan fór á flug þegar England tapaði fyrir Rúmeníu í öðrum leik og Beckham var mættur í byrjunarliðið í lokaleik riðilsins gegn Kólumbíu. Þar skoraði hann úr einni af sínum frægu aukaspyrnum í 2-0 sigri.

Leikurinn gegn Argentínu er eftirminnilegur og innihélt stórfenglegt mark frá Michael Owen. En það er rauða spjaldið sem flestir tala um þegar hann er rifjaður upp.

Diego Simeone leikmaður Argentínu, núverandi stjóri Atletico Madrid, braut á Beckham sem lá pirraður á grasinu. Lúmskulega sparkaði Beckham til Simeone meðan hann lá, samt ekki nægilega lúmskulega. Dómarinn sá atvikið og refsaði Beckham fyrir að missa stjórn á sér.

Simeone viðurkenndi í viðtali síðar að hafa ýkt viðbrögð sín til að fiska Beckham af velli.

Rauða spjaldið kom snemma í seinni hálfleiknum þegar staðan var 2-2. Tíu gegn ellefu börðust Englendingar hetjulega og komu leiknum í vítaspyrnukeppni þar sem þeir þurftu svo að játa sig sigraða.

Eftir leikinn kom í ljós að David Batty tók spyrnu í staðinn fyrir Beckham í vítaspyrnukeppninni en fyrir leik var ákveðið að ef úrslit myndu ráðast í vítaspyrnukeppni færi Beckham á punktinn. Batty klúðraði sinni spyrnu.

„Tíu hetjuleg ljón og einn heimskur strákur" var meðal fyrirsagna í ensku pressunni sem gjörsamlega slátraði Beckham. Treyjur merktar honum og brúðueftirlíkingar voru brenndar fyrir utan bari í London.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sagði Beckham að sleppa því að koma beint heim til Englands eftir mótið enda allt á hvolfi í landinu. Beckham fór í frí til Bandaríkjanna.

Baulað var á Beckham á fótboltavöllum Englands í ár á eftir en hann náði ensku þjóðinni í sátt og gott betur en það með því að skora úr aukaspyrnu gegn Grikklandi 2001 sem tryggði liðinu sæti á HM 2002. Frægasta mark hans fyrir England.

„Þetta rauða spjald var ein erfiðasta en mikilvægasta stund á mínum ferli. Þetta áfall gerði það að verkum að ég þroskaðist hraðar. Þetta var erfitt fyrir mig sem leikmann og fyrir mig sem einstakling," segir Beckham.

Vonandi verður Ísland með ellefu leikmenn á vellinum allar 90 mínúturnar gegn Portúgal í Saint-Etienne.

Rauða spjaldið:

Athugasemdir
banner
banner
banner