Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 07. ágúst 2017 17:45
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 17. sæti: Burnley
Það er væntanlega fallbarátta framundan hjá Jóa Berg og félögum.
Það er væntanlega fallbarátta framundan hjá Jóa Berg og félögum.
Mynd: Getty Images
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Sean Dyche er kóngurinn hjá Burnley.
Sean Dyche er kóngurinn hjá Burnley.
Mynd: Getty Images
Markvörðurinn Tom Heaton.
Markvörðurinn Tom Heaton.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Burnley heldur sæti sínu naumlega ef spáin rætist.

Lokastaða síðasta tímabils: 16. sæti
Markahæstur á síðasta tímabili: Sam Vokes (12)

Er hægt að halda áfram að treysta á heimavöllinn?
„Það skiptir ekki máli hvaðan stigin koma, svo lengi sem þau koma," svaraði Sean Dyche hvað eftir annað á síðasta tímabili þegar hann var spurður út í það af hverju liðinu gekk svona illa á útivöllum.

Burnley vann fleiri heimaleiki en Manchester United á síðasta tímabili og náði samtals í 33 af 40 stigum sínum á Turf Moor. Eini sigur liðsins á útivelli kom 29. apríl.

Það ber að hrósa Burnley fyrir að hafa náð að gera heimavöll sinn að gryfju. Síðast þegar liðið var uppi vann það aðeins fjóra heimaleiki og tapaði gegn liðunum í kringum sig. Það leiddi til falls.

Liðið getur ekki treyst á alla þessa heimasigra á komandi tímabili og verður að sækja fleiri stig á útivelli til að ná að byggja ofan á 16. sætið sem varð niðurstaðan á síðasta tímabili

Stjórinn: Sean Dyche
Þegar hann tók við Burnley var liðið í neðri hluta Championship-deildarinnar. Undir hans stjórn hefur liðið nú í fyrsta sinn í sögunni tryggt sér tvö úrvalsdeildartímabil í röð. Það er bara tímaspursmál hvenær stærra félag mun banka á dyrnar og þá þarf Burnley að sýna hörku. Það er ekki hægt að skipta Dyche út.

Hvað þarf að gerast?
Skora fleiri mörk. Ekkert lið af þeim sem hélt sér uppi í deildinni á síðasta tímabili skoraði færri mörk en Burnley. Varnarmaðurinn Michael Keane er kominn til Everton og það er útlit fyrir að Tom Heaton markvörður muni aftur hafa nóg að gera í rammanum. Ekkert lið fékk fleiri skot á sig en Burnley á síðasta tímabili. Burnley hefur einnig misst Joey Barton sem var drjúgur en Barton er kominn í bann vegna þess að hann braut veðmálareglur.

Lykilmaður: Sam Vokes
Vokes hafði aldrei skorað í efstu deild þar til hann skoraði gegn Liverpool á síðasta tímabili, á hans fimmta tímabili í efstu deild. Hann endaði sem markakóngur Burnley og aðeins Christian Benteke vann fleiri bolta í loftinu en velski framherjinn.

Fylgist með: Jóhann Berg Guðmundsson
Okkar maður á sínu öðru tímabili hjá Burnley. Hann náði ekki að stimpla sig inn af þeim krafti sem vonast var eftir á síðasta tímabili en meiðsli settu strik í reikninginn. Jóa Berg bíður það verkefni að reyna að festa sig í sessi í byrjunarliði Burnley.

Komnir:
Charlie Taylor (Leeds United)
Jonathan Walters (Stoke City)
Jack Cork (Swansea)
Phil Bardsley (Stoke City)

Farnir:
Michael Kightly
Joey Barton
Jon Flanagan (Liverpool) Úr láni
Michael Keane (Everton)
Rouwen Hennings (Fortuna Dusseldorf)
Paul Robinson (lagði skóna á hilluna)
Tendayi Darikwa (Nottingham Forest)

Þrír fyrstu leikir: Chelsea (Ú), West Brom (H) og Tottenham (Ú)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11 ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. ?
17. Burnley 33 stig
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner