mið 07. október 2015 16:06
Elvar Geir Magnússon
Garðar Jó: Stjarnan hefur ekkert talað við mig
Garðar Jóhannsson.
Garðar Jóhannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Garðar Jóhannsson, sóknarmaðurinn reynslumikli, býst ekki við að halda áfram í Stjörnunni en samningur hans við félagið er að renna út. Stjörnumenn hafa ekki rætt við Garðar um nýjan samning.

„Þeir hafa ekkert talað við mig svo ég býst við því að yfirgefa Stjörnuna. Ég er ekkert byrjaður að líta í kringum mig enda liggur ekkert á því. Það er bara gott að taka smá pásu frá þessu," segir Garðar.

Hann hyggst halda áfram í boltanum ef heilsan leyfir en meiðsli léku hann grátt í sumar og kom hann aðeins við sögu í sjö leikjum í Pepsi-deildinni.

„Ég hélt ég myndi ekki ná mér af þessu og íhugaði að leggja skóna á hilluna. En nú er ég orðinn alveg heill og þá langar mér að halda áfram. Ég stefni á að halda áfram að spila en ætla að bíða og sjá hvað býðst. Ég þarf ekkert að flýta mér."

Garðar er 35 ára og er uppalinn hjá Stjörnunni. Hann hefur á ferli sínum leikið sem atvinnumaður í Noregi og Þýskalandi auk þess að hafa verið í KR og Val.
Athugasemdir
banner
banner
banner