„Ég verð að vera heiðarlegur og segja að ég er með smá kvíðatilfinningu fyrir þessum leik," sagði landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson við Fótbolta.net í Las Vegas í gær en íslenska landsliðið mætir þar Mexíkó í vináttulandsleik sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 03:06 í nótt.
Íslenski landsliðshópurinn er mjög óreyndur, Hallgrímur Jónasson er lang leikjahæstur með 15 leiki en í heildina er hópur Íslands sem telur 19 menn með 42 landsleiki að baki. Til samanburðar er fyrirliði Mexíkó, Rafael Marquez fyrrverandi leikmaður Barcelona með 135.
„Þetta er mjög óreyndur hópur sem við höfum og í ofanálag við tímamismun og engan tíma til undirbúnings eru Mexíkóar með ótrúlega sterkt lið og geta stillt upp reynslumiklu liði," segir Heimir og heldur áfram.
„Þeirra tölfræði í síðustu leikjum hefur verið gríðarlega góð og ég held að þjálfarinn sé búinn að tapa einum leik af síðustu 17. Það lýsir sér í því að hann kemur með mjög sterkt lið á móti Íslandi, þeir spila upp á úrslit og þetta verður á allan hátt erfiður leikur fyrir okkur en engu að síður mikil áskorun fyrir þessa stráka."
En í ljósi alls þessa, má búast við að Heimir muni „leggja rútunni," í vítateignum til að verjast þeim grænu?
„Nei nei, auðvitað reynum við bara að spila okkar leik en við erum raunsæir og fyrirfram má reikna með að þeir verði meira með boltann. Þeir eru búnir að vera á góðu skriði og eru með 25-30 þúsund manns að öskra á sig. Þetta er tilfinningaríkur leikur, Mexíkó að spila í Bandaríkjunum og margt sem segir að þeir verði sterkir í leiknum og við verðum að vera tilbúnir í það."
Nánar er rætt við Heimi í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir