fim 08. mars 2018 11:25
Elvar Geir Magnússon
Fjölmiðlafulltrúi KSÍ fór með sjúkraþyrlu í Rússlandi
Ómar hlaut heiðursverðlaun Fótbolta.net 2016.
Ómar hlaut heiðursverðlaun Fótbolta.net 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, var fluttur með sjúkraþyrlu í Rússlandi í síðustu viku þar sem hann var staddur í vinnuferð. Hann missti skyndilega mátt í vinstri hluta líkamans.

„Þetta hefur farið betur en á horfðist, ég var undirbúa mig undir daginn í Gelendzhik þegar ég fékk að þeir halda væga blæðingu. Ég missti alveg máttinn og stjórn á vinstri hluta líkamans, löppin gaf sig og höndin virkaði ekki," sagði Ómar við 433.is.

Ómar var fluttur með sjúkraþyrlu á hátæknisjúkrahúsið í Krasnodar þar sem hann var nokkra daga á gjörgæsludeild en hann er nú kominn heim til Íslands.

„Það var virkilega vel hugsað um mig og Íslendingar sem fara á Heimsmeistaramótið í sumar þurfa ekki að óttast neitt. Það er allt í toppstandi miðað við þessa reynslu mína af sjúkrahúsum, það er bara góð regla að vera með tryggingarskírteinið útprentað."

Það er mikið álag á Ómari enda HM framundan og líklegt að það hafi haft áhrif.

„Ég held að ég þurfi kannski að vinna minna, það er erfitt að halda sér alveg í burtu. Ég held að svona gerist bara í langtíma álagi, það er ekki nein ein skýring. Ég fer í frekari rannsóknir hérna heima. Maður lærir að meta hlutina aðeins betur og þegar svona kemur upp setur þetta allt í meira samhengi. Ég hef það ágætt eftir þetta, þrekið er afar lítið. Ég fer í göngutúr og líður eins og ég hafi verið að taka heila æfingu í ræktinni, þetta kemur," segir Ómar við 433 en hann er harðákveðinn í því að ná sér góðum og fara með strákunum okkar á HM í Rússlandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner