Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 08. júní 2015 12:30
Arnar Daði Arnarsson
Jói Kalli reyndi skot frá miðju: Ekkert fyrirfram ákveðið
Jóhannes Karl, leikmaður Fylkis.
Jóhannes Karl, leikmaður Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skagamaðurinn, Jóhannes Karl Guðjónsson leikmaður Fylkis lék í gærkvöldi sinn fyrsta leik gegn ÍA á efstu deild. Hann byrjaði leikinn með látum og lét vaða á mark ÍA í upphafsspyrnunni.

„Þetta var ekkert fyrirfram ákveðið. Ég sá að Árni Snær stóð framarlega í teignum og ég ákvað að láta vaða," sagði Jóhannes Karl sem viðurkennir að það hafi verið skrýtin tilfinning að mæta ÍA.

„Ég labbaði inná völlinn með tvo yngstu syni mína sem báðir voru klæddir í ÍA-treyjur. Öll fjölskyldan heldur með ÍA, þetta voru blendnar tilfinningar. En þegar leikurinn byrjar þá er þetta eins og hver annar leikur," sagði Jói Kalli. Synirnir hans voru þó ánægðir með markalaust jafntefli í leiknum í gær.

„Synir mínir voru ánægðir eftir leikinn að þetta hafi farið jafntefli, þá skiptum við stigunum jafnt á milli okkar."

Jói Kalli var nálægt því að skora í seinni hálfleik, þegar hann átti skot innan teigs sem fór rétt framhjá fjærstönginni.

„Ég var alveg viss um að boltinn væri á leiðinni inn. Ég náði góðu ''touch-i'' á boltann og átti fínt skot. Boltinn sveif rétt framhjá stönginni fjær. Það hefði verið gaman að skora fyrsta markið í sumar, en því miður fór boltinn ekki inn," sagði Jói Kalli að lokum.
Athugasemdir
banner
banner