banner
   þri 08. ágúst 2017 10:45
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 12. sæti: Newcastle
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Rafael Benítez.
Rafael Benítez.
Mynd: Getty Images
Dwight Gayle.
Dwight Gayle.
Mynd: Getty Images
Mike Ashley, skrautlegur eigandi Newcastle.
Mike Ashley, skrautlegur eigandi Newcastle.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Nú er komið að nýliðunum úr norðrinu.

Lokastaða síðasta tímabils: 1. sæti í Championship
Markahæstur á síðasta tímabili: Dwight Gayle (23)

Hvað býr Benítez til hjá Newcastle?
Fyrsta markmiði er náð. Newcastle er komið aftur í ensku úrvalsdeildina. Það er árangur sem skal ekki vanmeta. Á síðustu sex tímabilum hefur það bara verið Burnley sem hefur náð að vinna Championship árið eftir fall úr úrvalsdeildinni.

Rafael Benítez er elskaður af stuðningsmönnum Newcastle. Þeir elska hann fyrir að hafa verið áfram eftir fall liðsins, um sex mánuðum eftir að hann var að stýra Real Madrid, og þeir elska hann fyrir að hafa stýrt liðinu aftur upp í deild þeirra bestu.

Benítez elskar hina mögnuðu stuðningsmenn og segir að ástin sem hann hafi fundið fyrir frá þeim hafi spilað stóran þátt í því að hann ákvað að vera áfram.

Hvað er næsta markmið? Benítez vill komast eins langt með Newcastle og möguleiki er á. Hann segist vilja byggja upp lið sem geti keppt um allt í enska boltanum. Þessi metnaður hljómar eins og tónlist í eyrum stuðningsmanna en raunin er sú að félagið þarf að styrkja liðið verulega ef það ætlar að keppa um Evrópusæti.

Newcastle hefur keypt færri stór nöfn en reiknað var með. Mögulegt er að helsta ástæða þess sé sú að Mike Ashley eigandi hefur lengi skoðað möguleika þess að selja félagið.

Stjórinn: Rafael Benítez
Tveir Spánarmeistaratitlar, FA bikarinn, Ítalski bikarinn, Evrópudeildin og Meistaradeildin. Þetta er brot af ferilskrá Spánverjans. Benítez gerir miklar kröfur á leikmenn sína, starfslið og yfirmenn. Fróðlegt verður að sjá hvernig samband hans og Mike Ashley eiganda muni haldast.

Hvað þarf að gerast?
Newcastle á gríðarlega öfluga stuðningsmenn sem láta vel í sér heyra. Þrátt fyrir að St James' Park sé stór leikvangur geta þeir gert hann að gryfju. Benítez leggur mikla áherslu á skyndisóknir sem ættu að virka vel gegn stærstu liðum deildarinnar. Á köflum átti Newcastle í vandræðum með að brjóta niður varnir þeirra liða sem pökkuðu gegn þeim á síðasta tímabili. Umræða um breytingar á eignarhaldi félagsins hefur lengi verið á lofti og spurning hvort félagið þurfi ekki á því að halda að þeirri óvissu verði eytt.

Lykilmaður: Jonjo Shelvey
Leikmaður með mikinn leikskilning, flotta tækni og mikla skothörku. Shelvey er frábær miðjumaður sem þarf þó að halda haus. Kveikiþráðurinn er stuttur en hann hefur allt til brunns að bera til að gera frábæra hluti í vetur.

Fylgist með: Dwight Gayle
Skoraði 23 mörk fyrir Newcastle í Championship en getur hann skorað í úrvalseildinni? Hann skoraði 15 úrvalsdeildarmörk á þremur tímabilum og 64 leikjum fyrir Crystal Palace en meiðslavandræði gerðu honum erfitt fyrir. Newcastle þarf öruggan markaskorara í sinn hóp til að létta ábyrgðinni á Gayle og félögum.

Komnir:
Christian Atsu (Chelsea)
Florian Lejeune (Eibar)
Stefan O'Connor (Arsenal)
Josef Yarney (Everton)
Jacob Murphy (Norwich City)
Javier Manquillo (Atletico Madrid)
Mikel Merino (Borussia Dortmund) Lán

Farnir:
Florian Thauvin (Marseille)
Kevin Mbabu (BSC Young Boys)
Matz Sels (Anderlecht) Lán
Haris Vuckic (FC Twente)
Vurnon Anita (Leeds United)
Adam Armstrong (Bolton) Lán
Yoan Gouffran (Goztepe Spor Kulubu)
Daryl Murphy (Nottingham Forest)
Lewis Gibson (Everton)
Ivan Toney (Wigan Athletic) Lán

Þrír fyrstu leikir: Tottenham (H), Huddersfield (Ú) og West Ham (H)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11 ?
12. Newcastle 82 stig
13. Bournemouth 76 stig
14. West Bromwich Albion 69 stig
15. Crystal Palace 65 stig
16. Watford 40 stig
17. Burnley 33 stig
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner