Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   þri 08. ágúst 2017 15:30
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 9. sæti: West Ham
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Knattspyrnustjórinn Slaven Bilic.
Knattspyrnustjórinn Slaven Bilic.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Chicharito er kominn til West Ham.
Chicharito er kominn til West Ham.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Joe Hart.
Markvörðurinn Joe Hart.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Íslandsvinirnir í West Ham eru næstir á svið.

Lokastaða síðasta tímabils: 11. sæti
Markahæstur á síðasta tímabili: Michail Antonio (10)

Bilic fer inn í tímabilið með pressu á bakinu
Síðasta tímabil var erfitt fyrir félagið og að mörgu leyti furðulegt. Liðið flutti á nýjan leikvang sem ekki var upphaflega hannaður fyrir fótbolta og skærasta stjarna liðsins, Dimitri Payet, fór í fýlu og vildi fara. Á þessu smjöttuðu fjölmiðlar og pirringur stuðningsmanna var magnaður upp.

Ofan á þetta komu meiðsli og illa nýttir félagaskiptagluggar svo álagið á knattspyrnustjórann Slaven Bilic var mikið. Hann fékk einnig gagnrýni fyrir ákvarðanatökur sínar og varnarleikurinn var ekki nægilega traustur. Liðið tapaði illa á heimavelli fyrir Watford, Southampton, Arsena, Manchester City og Liverpool.

Óstöðugleikinn er mikill og það er hávær umræða um hvort Bilic muni lifa tímabilið af. Hann á sér samt mikla stuðningsmenn innan raða dyggustu stuðningsmanna liðsins sem elska þá ástríðu sem hann hefur fyrir boltanum og sýnir svo glögglega á hliðarlínunni.

Javier Hernandez, Chicharito, er meðal nýrra leikmanna en Hamrarnir hafa lengi verið í leit að sóknarmanni sem hægt er að stóla á að skori vænan skammt af mörkum. Andy Carroll skoraði markið magnaða gegn Crystal Palace og minnti á að hann væri enn á lífi áður en hann skellti sér aftur á meiðslalistann aftur.

Stjórinn: Slaven Bilic
Króatinn grjótharði var gríðarlega vinsæll sem leikmaður West Ham á árum áður. Hann þjálfaði meðal annars landslið Króatíu og Besiktas í Tyrklandi áður en hann tók við West Ham 2015. Utan vallar er Bilic mikill rokkáhugamaður og tekur sjálfur stundum í gítarinn með rokkhópnum Rawbau.

Hvað þarf að gerast?
Meiðslavandræði hafa verið að leika West Ham grátt en félagið hefur brugðist við þeim vandræðum með því að ráða Gary Lewin, fyrrum sjúkraþjálfara Arsenal og Englands, sem yfirmann sjúkraþjálfunardeildar sinnar. Vonast er til þess að vinnan bak við tjöldin skili því að Bilic þurfi ekki að spila mönnum úr stöðu eins oft og hann hefur þurft að undanförnu. West Ham þarf að standa sig betur í að verja forystu í leikjum. 22 stigum var kastað í bálið eftir að liðið var yfir á síðustu leiktíð.

Lykilmaður: Manuel Lanzini
Þar sem Payet er farinn þá á Argentínumaðurinn leikni möguleika á að taka við sem helsta stjarna Hamranna. Önnur félög hafa sýnt Lanzini áhuga en félagið hefur náð að slá þau frá sér. Lanzini er pakkfullur af hæfileikum og með góðan leikskilning. Leikmaður sem getur farið ansi illa með varnarmenn.

Fylgist með: Joe Hart
Enski landsliðsmarkvörðurinn var ekki í áætlunum Pep Guardiola og var lánaður til West Ham í eitt ár. Hart var hjá Torino á síðasta tímabili þar sem frammistaða hans var misjöfn en hann er ákveðinn í að sýna Guardiola að það hafi verið röng ákvörðun að senda sig í burtu frá Manchester City.

Komnir:
Pablo Zabaleta (Manchester City)
Joe Hart (Manchester City) Lán
Marko Arnautovic (Stoke)
Javier Hernandez (Bayer Leverkusen) £16m
Sead Haksabanovic (Halmstad)

Farnir:
Jonathan Calleri (Deportivo Maldonado) Til baka úr láni
Gokhan Tore (Besiktas) Til baka úr láni
Alvaro Arbeloa (látinn fara)
Havard Nordtveit (Hoffenheim)
Reece Oxford (Borussia Monchengladbach) Lán
Enner Valencia (Tigres UANL)
Darren Randolph (Middlesbrough) £5m
Ashley Fletcher (Middlesbrough) £6.5m
Reece Burke (Bolton Wanderers) Lán

Þrír fyrstu leikir: Man Utd (Ú), Southampton (Ú) og Newcastle (Ú)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. West Ham 110 stig
10. Stoke 89 stig
11 Leicester 85 stig
12. Newcastle 82 stig
13. Bournemouth 76 stig
14. West Bromwich Albion 69 stig
15. Crystal Palace 65 stig
16. Watford 40 stig
17. Burnley 33 stig
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner