Efstir á lista ef Guardiola hættir - Alexander-Arnold á leið til Real Madrid - Barcelona hafnaði risatilboði í Yamal - Ten Hag vill De Jong í janúar
   mán 08. september 2014 16:30
Magnús Már Einarsson
Aron Einar: Veit ekki af hverju nafnið mitt var dregið inn í sms
Landsliðsfyrirliðinn í ítarlegu viðtali
Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði Íslands og leikmaður Cardiff.
Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði Íslands og leikmaður Cardiff.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég vissi ekki einu sinni að þetta hefði verið fyrsta úrvalsdeildarmarkið í sögu Cardiff.  Það var sætt að ná að vinna þann leik en það voru virkilega mikil vonbrigði að ná ekki að halda sér í deildinni á endanum.“
,,Ég vissi ekki einu sinni að þetta hefði verið fyrsta úrvalsdeildarmarkið í sögu Cardiff. Það var sætt að ná að vinna þann leik en það voru virkilega mikil vonbrigði að ná ekki að halda sér í deildinni á endanum.“
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær: ,,Hann er virkilega rólegur og það er ekkert stress í honum.  Hann vill hafa þetta eins og hann vill hafa þetta og hann er öðruvísi en fyrri stjóri.  Hann er jákvæður og reynir að halda ró yfir mannskapnum.  Hann hefur gert það vel.  Hann er fínn stjóri.
Ole Gunnar Solskjær: ,,Hann er virkilega rólegur og það er ekkert stress í honum. Hann vill hafa þetta eins og hann vill hafa þetta og hann er öðruvísi en fyrri stjóri. Hann er jákvæður og reynir að halda ró yfir mannskapnum. Hann hefur gert það vel. Hann er fínn stjóri.
Mynd: Getty Images
,,Nafnið mitt var dregið inn í eitthvað sms og ég veit ekki af hverju.  Þó að ég sé svekktur að vera ekki í liðinu þá er það síðasta sem ég myndi gera að leka liðinu.“
,,Nafnið mitt var dregið inn í eitthvað sms og ég veit ekki af hverju. Þó að ég sé svekktur að vera ekki í liðinu þá er það síðasta sem ég myndi gera að leka liðinu.“
Mynd: Getty Images
,,Það er gaman að finna áhuga fólks á Íslandi.  Handboltalandsliðið hefur verið frábært og körfubolta liðið var að komast á stórmót og við erum vonandi næstir.
,,Það er gaman að finna áhuga fólks á Íslandi. Handboltalandsliðið hefur verið frábært og körfubolta liðið var að komast á stórmót og við erum vonandi næstir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Auðvitað hefði verið gaman að vera þarna en það hefði kannski verið of stórt stökk fyrir okkur.  Kannski þurftum við aðra undankeppni í viðbót.  Við erum reynslunni ríkari eftir síðustu undankeppni og að hafa komist svona nálægt þessu kveikir ennþá meira í okkur.“
,,Auðvitað hefði verið gaman að vera þarna en það hefði kannski verið of stórt stökk fyrir okkur. Kannski þurftum við aðra undankeppni í viðbót. Við erum reynslunni ríkari eftir síðustu undankeppni og að hafa komist svona nálægt þessu kveikir ennþá meira í okkur.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er vont að sjá stöðuna en þetta er ekki nógu góður hópur.  Það er enginn peningur heima á Akureyri.  Palli Gísla hefur verið að reyna að spila á mörgum uppöldum mönnum en þetta hefur verið erfitt sumar.
,,Það er vont að sjá stöðuna en þetta er ekki nógu góður hópur. Það er enginn peningur heima á Akureyri. Palli Gísla hefur verið að reyna að spila á mörgum uppöldum mönnum en þetta hefur verið erfitt sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hafa skipst á skin og skúrir hjá Aroni Einari Gunnarssyni landsliðsfyrirliða undanfarin tvö ár. Aron fór í úrslit enska deildabikarsins með Cardiff árið 2012 og ári síðar fór hann upp í úrvalsdeild með liðinu. Aron komst með íslenska landsliðinu í umspil um sæti á HM í fyrra og fyrr á þessu ári féll Cardiff aftur úr úrvalsdeildinni. Aron settist niður með Fótbolta.net á Hótel Nordica um helgina og ræddi undanfarin tímabil.

,,Ég hef alltaf trú á mér. Markmiðið er að komast aftur upp í úrvalsdeildina. Þetta var virkilega gaman þó að þetta hafi verið erfitt stundum. Maður stefndi alltaf á að spila með þeirra bestu. Að hafa fengið smjörþefinn af því að spila í úrvalsdeildinni ýtir mér bara áfram,“ segir Aron en hann skoraði fyrsta mark Cardiff í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Aron skoraði þá í eftirminnilegum sigri á ensku meisturunum í Manchester City.

,,Það var virkilega sætt. Ég pældi voðalega lítið í því á þeim tímapunkti. Ég vissi ekki einu sinni að þetta hefði verið fyrsta úrvalsdeildarmarkið í sögu Cardiff. Það var sætt að ná að vinna þann leik en það voru virkilega mikil vonbrigði að ná ekki að halda sér í deildinni á endanum.“

Félög í ensku úrvalsdeildinni spurðust fyrir um Aron í sumar en sá áhugi fór ekkert lengra. Aron segist hafa verið staðráðinn í að taka slaginn áfram með Cardiff þrátt fyrir fall úr ensku úrvalsdeildinni og að hann hafi ekki alltaf átt fast sæti í byrjunarliðinu á síðasta tímabili.

,,Það er alltaf eitthvað verið að skoða aðra möguleika en ég var ekkert með hugann að því. Ég var einbeittur að því að koma mér aftur í liðið. Hvort það myndi ganga upp eða ekki vissi ég ekki en ég kom með opnum hug í undirbúningstímabilið og byrjaði að æfa á fullu. Ég kom mér í fínt form og byrjaði að spila. Þetta kom sjálfkrafa í rauninni. Ég hélt mínu striki og vann mig aftur í liðið.“

Solskjær mjög rólegur
Norðmaðurinn góðkunni Ole Gunnar Solskjær tók við Cardiff í kringum áramótin í fyrra af Malky Mackay. Aron kann vel við Solskjær.

,,Hann er virkilega rólegur og það er ekkert stress í honum. Hann er öðruvísi en fyrri stjóri. Hann er jákvæður og reynir að halda ró yfir mannskapnum. Hann hefur gert það vel. Hann er fínn stjóri. Hann er ekki með reynslu af því að falla eftir að hafa spilað með einu sigursælasta liði Evrópu. Hann er ekki vanur því að vera í botnbaráttu en fékk að kynnast því í fyrra og hann höndlaði það vel. Hann hélt mönnum á tánum þó að það hafi verið erfitt,“ sagði Aron en markmiðið hjá Cardiff er að komast aftur upp í deild þeirra bestu.

,,Það er gífurleg pressa á okkur og maður finnur aðeins fyrir því. Við erum búnir að eyða það miklum pening. Þessi deild er ekki auðveld eins og margir vita. Við erum stóran og sterkan hóp og við erum með mannskap í þetta. Það er pressa á okkur að komast upp og vonandi náum við því markmiði,“ segir Aron og bætir við að talsverður munur sé á tveimur efstu deildunum.

,,Það er meiri hraði í Championship en þú kemst upp með öðruvísi mistök þar. Ef þú gerir grunnmistök í úrvalsdeildinni þá er þér refsað fyrir það. Það er aðeins meiri harka, hraði og tempó í Championship deildinni og fleiri leikir en það eru meiri gæði í úrvalsdeildinni. Leikmenn eru teknískir og þér er refsað fyrir mistök sem þú kemst upp með í Championship.“

Hafði ekkert á samviskunni
Crystal Palace fékk á dögunum sekt frá enska knattspyrnusambandinu eftir að upp komst að félagið hefði brotið reglur með því að afla sér upplýsinga um byrjunarlið Cardiff fyrir fallslag liðanna síðastliðið vor.

Nafn Arons dróst inn í það mál í vor en einhverja hluta vegna var hann ranglega sakaður um að hafa lekið liðinu til Crystal Palace. Aron þvertók strax fyrir allt slíkt og Cardiff stóð með honum frá byrjun.

,, Ég var ekki að kippa mér upp við þetta því að ég vissi að ég hafði ekkert á samviskunni. Ég fékk þessar fréttir þegar ég var að spila golf og ég kláraði bara hringinn og slappaði af,“ segir Aron um málið.

,,Maður veit að lið eru að reyna að komast að því hverjir eru í byrjunarliðinu í hinu liðinu. Það voru leiðindi að mitt nafn var dregið inn í þetta. Það var gerð rannsókn á þessu í lok tímabilsins og það kom ekkert meira úr því. Ég get ekki skýrt af hverju ég var dreginn inn í þetta. Nafnið mitt var dregið inn í eitthvað sms og ég veit ekki af hverju. Þó að ég sé svekktur að vera ekki í liðinu þá er það síðasta sem ég myndi gera að leka liðinu.“

,,Þetta er gleymt og grafið. Palace er búið að borga sína sekt og menn eru ekki að dvelja við þetta. Cardiff hefur gleymt þessu og ég held að það sé eina í stöðunni. Ég veit ekki hver gerði þetta, en það var allavega ekki ég. Ég fékk strax stuðning frá Cardiff og ég sagði þeim að ég hefði ekki gert þetta. Þeir trúðu mér enda var ég í hóp í næsta leik.“


,,Vonandi erum við næstir"
Aron er 25 ára gamall en hann hefur þrátt fyrir það mikla reynslu með landsliðinu. Aron á 44 landsleiki að baki og hann hefur tekið þátt í uppgangi landsliðsins undanfarin ár.

,,Ég kem inn í þetta 18 ára og við vorum sterkir þá en við erum með öðruvísi lið núna. Þetta er árgangur sem hefur komið upp og spilað saman upp öll yngri landsliðin. Við kunnum virkilega vel inn á hvorn annan. Það er gaman að finna áhuga fólks á Íslandi. Handboltalandsliðið hefur verið frábært og körfubolta liðið var að komast á stórmót og við erum vonandi næstir. Það þarf allt að ganga upp. Vonandi náum við að taka reynsluna með okkur úr síðustu undankeppni," sagði Aron en fleiri leikmenn en hann eru komnir með góða reynslu með landsliðinu eftir að hafa spilað þar í nokkur ár.

,,Það er Óla Jó að þakka að við fengum reynslu. Hann tók sénsinn á því að taka alla inn og gefa þeim sénsinn. Það hefur skilað sér. Þetta er skemmtilegur árgangur og vonandi náum við að gera eitthvað úr því. Það er ekki nóg að segja að þetta sé flottur árangur og að við spilum skemmtilegan fótbolta. Það vilja allir sjá árangur.“

,,Það væri draumur allra í hópnum og draumur allra landsmanna að fara á stórmót held ég. Það er gífurlegur áhugi á ensku úrvalsdeildinni á Íslandi og það var alltaf markmiðið að kveikja áhuga fólks á landsliðinu. Vonandi náum við að halda þeim við efnið og byrja vel á móti Tyrkjum . Við byrjuðum vel á móti Noregi í síðustu keppni og það er gaman þegar allir eru saman í þessu.“


HM hefði kannski verið of stórt stökk
Árangur íslenska landsliðsins hefur vakið áhuga á heimsvísu enda eru margir gapandi yfir því að rúmlega 300 þúsund manna þjóð hafi einungis verið hársbreidd frá sæti á HM.

,,Fólk horfir á hópinn og sér að þetta eru bara ungir strákar. Fólk var gáttað út um allan heim þegar Ísland komst í umspil á móti Króatíu. Við stóðum í þeim á heimavelli og það var árangur út af fyrir sig. Við viljum samt auðvitað meira og það er okkar markmið,“ segir Aron og bætir við að það hafi ekki verið erfitt að fylgjast með HM í Brasilíu í sumar.

,,Nei nei. Auðvitað hefði verið gaman að vera þarna en það hefði kannski verið of stórt stökk fyrir okkur. Kannski þurftum við aðra undankeppni í viðbót. Við erum reynslunni ríkari eftir síðustu undankeppni og að hafa komist svona nálægt þessu kveikir ennþá meira í okkur.“

Lærði af mistökunum í Albaníu
Í síðustu undankeppni var Aron gagnrýndur fyrir ummæli í viðtali á Fótbolta.net fyrir leik gegn Albaníu. ,,„Það er mikil fátækt í þessu landi og þetta eru mest megnis glæpamenn," sagði Aron meðal annars. Aron segist sjá eftir ummælunum en hann var fljótur að biðjast afsökunar.

,,Maður hefur fengið á sig yfirdrull og allt það. Ég hef alltaf verið með breitt bak og get tekið hlutum. Þetta voru mistök sem ég gerði og ég kem ekki til með að gera eins mistök aftur. Ég lærði af þessu og þetta gerði mig sterkari fyrir vikið. Það sást kannski í leiknum gegn Albaníu hvað menn voru einbeittir eftir þetta. Þetta var erfitt en menn gera mistök og læra af þeim.“

,,Ég fattaði strax að þetta voru slæm mistök og baðst innilegrar afsökunar. Ég sendi afsökunarbeiðni á 0,1. Maður er alltaf að læra og mistök eru til þess að læra af þeim. Vonandi gerir maður ekki of mikið af þeim.“


Hópurinn hjá Þór ekki nógu góður
Áður en spjallinu lýkur berst talið að uppeldisfélagi Arons, Þór á Akureyri. Þórsarar sitja á botninum í Pepsi-deildinni og fall blasir við liðinu.

,,Ég fylgist vel með þeim. Það er vont að sjá stöðuna en þetta er ekki nógu góður hópur. Það er enginn peningur heima á Akureyri. Palli Gísla hefur verið að reyna að spila á mörgum uppöldum mönnum en þetta hefur verið erfitt sumar. Áhuginn hefur dvínað heima. Maður sér það á Mjölnismönnum og allt í kringum leikina heima.“

Reglulega skýtur upp kollinum umræða á Akureyri um að réttast sé að sameina Þór og KA en Aron er á móti því eins og margir aðrir.

,,Ég hef alltaf haldið því fram að ég vilji ekki sjá það. Maður veit aldrei hvað gerist í framtíðinni. Hvort það gerist og það verði eitt gott lið á Akureyri. Það eru jákvæðir og neikvæðir punktar í því. Þeir þurfa að díla við það heima. Ég hef ekki áhrif á það, ég segi bara mína skoðun,“ sagði Aron að lokum.
Athugasemdir
banner
banner