mið 08. nóvember 2017 13:30
Magnús Már Einarsson
Rúna Sif spilandi aðstoðarþjálfari hjá Fjölni (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúna Sif Stefánsdóttir hefur verið ráðin spilandi aðstoðarþjálfari hjá Fjölni í 1. deild kvenna. Hún skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í dag.

Páll Árnason var í síðustu viku ráðinn þjálfari Fjölnis og Rúna verður honum til aðstoðar.

Rúna er uppalin hjá Fjölni og hún hóf meistaraflokksferilinn þar árið 2004. Rúna fór í Fylki fyrir sumarið 2009 og þaðan í Stjörnuna þar sem hún varð tvívegis Íslandsmeistari og tvívegis bikarmeistari.

Árið 2016 spilaði Rúna með Val en hún var í fríi frá fótbolta á nýliðnu tímabili. Samtals hefur Rúna skorað 47 mörk í 201 leik á ferlinum.

„Rúna er sóknarsinnaður leikmaður með öflugan vinstri fót en því til staðfestingar má nefna að tímabilið 2013 hlaut hún verðlaun fyrir flestar stoðsendingar í Pepsi deild kvenna eða samtals 16 - en þess má geta að sömu verðlaun karlamegin það árið hlaut Ólafur Páll Snorrason, núverandi þjálfari meistaraflokks karla. Rúna hefur m.a. unnið tvo Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla og leikið í Evrópukeppnum," segir í yfirlýsingu frá Fjölni.

„Líkt og þessi stutta yfirferð gefur til kynna að þá eru þetta frábærar fréttir og sýnir, svo ekki verður um villst, þann mikla metnað og kraft sem býr innan félagsins um þessar mundir. Það er okkar trú að þetta sé bara byrjunin á því sem koma skal. En ásamt því að vera sterkur karakter þá er hér á ferðinni ekki síst góð fyrirmynd, innan vallar sem utan, fyrir alla þá ungu leikmenn Fjölnis sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki kvenna."

Fjönir vann sér sæti i 1. deild kvenna í haust en liðið endaði í 2. sæti í 2. deildinni.



Athugasemdir
banner
banner
banner