Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   fös 08. desember 2017 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Leikmaður Östersund: Hélt ég gæti aldrei vanist að vera í skóm
Mynd: Getty Images
Sænska liðið Östersund hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í Evrópudeildinni þar sem liðið er komið í 32-liða úrslit. Saga Östersund er ótrúleg en liðið lék í fyrsta sinn í sænsku úrvalsdeildinni í fyrra eftir að hafa verið lengi í neðri deildunum.

Saga Östersund er ótrúleg og saga eins leikmanns liðsins er það líka. Nígeríski sóknarmaðurinn Alhaji Gero var vanur að spila á götuhornum Nígeríu í engum skóm. Þegar hann fékk svo loksins að spila í skóm vildi hann helst ekki gera það.

„Heima í Afríku þar sem ég ólst upp, þá áttum við ekki mikið miðað við börnin í Evrópu þegar þau byrjuðu að spila fótbolta," segir Gero í samtali við vefsíðu UEFA.

„Þegar ég byrjaði að spila var ég ekki í neinum skóm. Ég spilaði skólaus þar sem mikið var um steina og flöskur á jörðinni."

„Það var óþægilegt fyrir mig þegar ég prófaði fyrsta að spila í skóm. Ég gat ekki spilað í þeim, ég var ekki vanur að gera það. Þegar 10 mínútur voru búnar af leiknum klæddi ég mig úr skónum og sagðist ætla að spila skólaus. Dómarinn sagði við mig að það væri bannað þar sem allir aðrir væru í skóm, svo ég varð að vera í þeim."

„Ég hélt gæti aldrei verið í skóm, en ég hélt áfram að reyna og stundum notaði ég þá og stundum ekki."

Gero er öflugur sóknarmaður og hefur farið illa með marga varnarmenn vopnaður góðum skóm.

Um ævintýri Östersund í Evrópudeildinni segir hann: „Fyrir ári síðan hefðirðu ekki trúað því að við værum á þeim stað sem við erum á í dag. Allt getur gerst í fótbolta."
Athugasemdir
banner