þri 09. janúar 2018 23:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óttast að Klopp fari - „Liverpool þarf að sýna metnað"
Mynd: Getty Images
Christian Purslow, fyrrum framkvæmdastjóri Liverpool, er áhyggjufullur yfir stöðu mála og telur að knattspyrnustjórinn Jurgen Klopp gæti yfirgefið félagið ef hlutirnir breytast ekki.

Stærstu félögin í ensku úrvalsdeildinni hafa eytt háum fjárhæðum í leikmenn og í leiðinni haldið sínum bestu mönnum.

Liverpool keypti hollenska varnarmanninn Virgil van Dijk á dögunum fyrir 75 milljónir punda en nokkrum dögum síðar var salan á Brasilíumanninum Philippe Coutinho til Barcelona staðfest. Coutinho var seldur fyrir rúmlega 140 milljónir punda.

Purslow telur að Liverpool verði að eyða meiri pening til leikmannakaupa til að sannfæra Klopp um að vera áfram. Það myndi líka hjálpa ef félaginu tækist að halda sínum bestu leikmönnum.

„Það eru ekki lengur sex stórlið, City, United og Chelsea eru að slíta sig frá Liverpool, Arsenal og Tottenham. Ástæðan er fjárhagslegs eðlis," sagði Purslow við Sky Sports.

„United, þú ert að tala um það að Paul Pogba, eftirsóttasti fótboltamaður heims, fór þangað."

„Afkastamesti framherji ensku úrvalsdeildarinnar, Romelu Lukaku, fór þangað síðasta sumar. Henrikh Mkhitaryan, sá miðjumaður sem skapaði mest í Þýskalandi, fór líka þangað."

„United er að versla í Harrods. Liverpool þarf að fara að versla í Harrods í staðinn fyrir að selja alla sína bestu leikmenn."

„Ég tel að Jurgen Klopp sé stjóri í hæsta gæðaflokki, hann verður næsti stjóri einhvers stórliðs ef Liverpool fer ekki að sýna metnað," sagði hann að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner