„Ryan getur klárlega verið Guardiola fyrir Manchester United. Ég er pottþéttur á því," segir Bryan Robson, fyrrum leikmaður United. Hann vill að Ryan Giggs fái tækifærið þegar Louis van Gaal hverfur á braut.
Guardiola stýrði varaliði Barcelona áður en hann var ráðinn þjálfari aðalliðsins 2008 og var ákaflega sigursæll. Hann hélt svo til Bayern München en mun í sumar taka við Manchester City.
Margir telja að Van Gaal láti af störfum sem stjóri United í sumar en Jose Mourinho er orðaður við starfið.
„Ryan hefur alltaf pælt mikið í leiknum. Hann hefur lagt mikið á sig til að komast langt. Talað er um að Guardiola sé snjall og með frábæran fótboltaheila. Ryan er ekkert öðruvísi. Hann þarf bara tækifærið," segir Robson.
„Ryan endurspeglar sál United. Hann hefur verið hjá félaginu síðan hann er 13 ára og veit um hvað hlutirnir snúast. Ég sé ekki betri kost. Gleymið því ekki að Guardiola fékk starfið hjá Barcelona án þess að hafa stýrt aðalliði."
Athugasemdir