Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 09. apríl 2018 12:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Baldur Sig: Tel mig ekki vera gamlan
Baldur Sigurðsson.
Baldur Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldur í leik gegn sínum gömlu félögum í KR í fyrra.
Baldur í leik gegn sínum gömlu félögum í KR í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldur í leik í Lengjubikarnum í vetur.
Baldur í leik í Lengjubikarnum í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Maður finnur að mótið er að byrja og spenningurinn er að koma," sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu á laugardaginn.

Stjarnan lagði FH 2-1 í síðustu viku í næstsíðasta æfingaleik sínum fyrir sumarið. Stjörnumenn hafa æft stíft í vetur og leikmenn eru í toppformi.

„Þetta var fyrsti leikurinn þar sem ég er ekki með strengi í leik. Í vetur hefur áherslan ekki verið að vera ferskur í leik. Það hefur
verið ferli í gangi til að reyna að toppa þegar mótið er að byrja,"
sagði Baldur í þættinum.

Sáttur með liðið
Stjörnumenn hafa ekki verið stórtækir á leikmannamarkaðinum í vetur en á móti hafa fáir leikmenn farið. Ævar Ingi Jóhannesson og Þorri Geir Rúnarsson eru einnig að koma til baka eftir erfið meiðsli á síðasta tímabili.

„Ég er mjög ánægður með liðið. Við höfum verið með full mikið af meiðslum í vetur en það eru flestir að koma til baka núna og það er jákvætt. Þessi hópur hefur verið saman lengi og mér finnst við vera á réttri leið. Við erum með sama þjálfara og höfum bætt við nýjum aðstoðarþjálfara og leikmönnum í ákveðnar stöður. Þeir gefa okkur öðruvísi vídd í liðið. Það eru komnar nýjar týpur í liðið en það hefur ekki áhrif á leikstíl liðsins."

Klár á miðjunni í 3-4-3 með Alex
Stjarnan hefur í vetur talsvert spilað 3-4-3 og Baldur hefur verið annar af mönnunum inni á miðri miðjunni. Baldur verður 33 ára síðar í mánuðinum en hann segir að hlaupin á miðjunni séu ekki að valda sér vandræðum.

„Ég tel mig ekki vera gamlan og ég hef engar áhyggjur af þessu. Ég er búinn að reyna að tileinka mér þann hugsunarhátt að ég er ungur. Ég er í góðu standi og hef engar áhyggjur," sagði Baldur.

Hinn 18 ára gamli Alex Þór Hauksson hefur spilað á miðjunni með Baldri í 3-4-3 kerfi hjá Stjörnunni í vetur. Alex vakti mikla athygli á síðasta timabili með Garðbæingum.

„Þetta er frábær strákur sem á framtíðina fyrir sér. Hann var óheppinn að úlniðsbrotna í vetur en hann er að ná sér á aftur á strik. Ég vona að hann haldi áfram sínum uppgangi," sagði Baldur meðal annars um Alex.

Sáu hluti sem hægt er að nýta sér gegn Val
Stjarnan tapaði 3-1 gegn Íslandsmeisturum Vals í undanúrslitum Lengjubikarsins á dögunum. Flestir spá því að Valur verði Íslandsmeistari en Baldur segir að Stjarnan viti um veikleika hjá liðinu.

„Þeir eru öflugir. Þegar við spiluðum við þá, þá voru þeir með besta liðið sitt inn á fyrir utan landsliðsbakvörðinn. Það eru ekki margir meiddir hjá þeim. Þeir litu mjög vel út í þeim leik og þeir eru öflugir á sínu grasi," sagði Baldur.

„Þeir eru góðir en það eru öll lið með veikleika. Við lærðum mikið af þessum leik. Það var mjög gaman að spila við þá á Valsvelli. Við sáum ýmislegt sem við teljum að við getum nýtt okkur þegar við mætum þeim næst. Mótið er samt ekki að fara að vinnast á því að vinna bara Val. Það verður mikilvægt að vinna heimaleikina og þetta mót verður mjög spennandi."

„Það eru margir leikmenn komnir heim úr atvinnumennsku. Þetta eru stór nöfn sem eru komin og ég held að fólk eigi von á góðu sumri. Ég hvet fólk til að mæta á völlinn og bæta áhorfendametið í sumar," sagði Baldur.

Stjörnumenn fóru í gær til Spánar þar sem þeir eru í æfingaferð á Campoamor. Verið er að leggja nýtt gervigras á Samsung-völlinn í Garðabæ og það ætti að vera klárt fyrir leikinn gegn Keflavík í 1. umferð Pepsi-deildarinnar föstudaginn 27. apríl.

Smelltu hér til að hlusta á útvarpsþáttinn (Viðtalið við Baldur er eftir 39:40 mínútur)
Athugasemdir
banner
banner