Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 09. apríl 2018 17:31
Elvar Geir Magnússon
Stelpurnar ánægðar með Þórsvöll í Gundadal
Icelandair
Frá Þórsvelli í Færeyjum í dag þegar íslenska liðið æfði þar.
Frá Þórsvelli í Færeyjum í dag þegar íslenska liðið æfði þar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar þessi frétt er skrifuð er sólarhringur í viðureign Færeyja og Íslands í undankeppni HM kvenna.

Stelpurnar okkar eru mörgum klössum fyrir ofan færeyska liðið og eitthvað mjög óvenjulegt verður að eiga sér stað á morgun til að leikurinn verði spennandi.

Á samfélagsmiðlum Fótbolta.net má sjá frá æfingu íslenska liðsins í dag, bæði á Instagram og Snapchat.

Eins og venjan er fyrir leikdag var æft á keppnisvellinum, sem er Þórsvöllur í Gundadal. Um er að ræða þjóðarleikvang Færeyja en hann tekur um 6 þúsund manns í sæti.

Um er að ræða afar smekklegan og flottan lítinn leikvang sem er sérhannaður fyrir fótbolta og með stúkurnar nálægt vellinum. Fyrir aftan annað markið má sjá stúku sem er á tveimur hæðum og á leikvanginum er veitingastaður sem er opinn alla daga vikunnar og er notaður sem bar á leikdögum.

Undirlag vallarins er gervigras í hæsta gæðaflokki en allir fótboltavellir Færeyja eru með gervigrasi. Því er ekki mikið mál fyrir granna okkar að hefja sína deildakeppni frekar snemma en fjórar umferðir eru þegar búnar af færeysku deildinni.

Landsliðsstelpurnar voru ánægðar með Þórsvöll á æfingunni í dag og gáfu gervigrasinu góða dóma.

Leikur Færeyja og Íslands hefst klukkan 16 á morgun. Hann verður sýndur beint á RÚV og verður auk þess í beinni textalýsingu hjá okkur.

Meðfylgjandi eru myndir sem Hafliði Breiðfjörð tók á Þórsvelli í dag.



Athugasemdir
banner
banner