Valsmenn hafa kallað markvörðinn Anton Ara Einarsson til baka úr láni frá Grindavík vegna meiðsla Ingvars Kale.
Valur hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í Pepsi-deildinni og hefur Ingvar fengið töluverða gagnrýni fyrir sína frammistöðu. Hann fór svo meiddur af velli gegn Víkingi Ólafsvík í gær.
Ljóst er að Ingvar spilar ekki næstu leiki Vals vegna þessara meiðsla.
Anton Ari, sem er fæddur 1994, lék fjóra leiki með Val í Pepsi-deildinni í fyrra en var lánaður til Grindavíkur fyrir þetta tímabil til að gefa honum leiki. Hann varði mark liðsins í 3-2 sigri gegn Haukum í fyrstu umferð Inkasso-deildarinnar. Það er skellur fyrir Grindvíkinga að missa Anton og ljóst að liðið þarf að finna nýjan markvörð í snatri.
Valur mætir Fylki á fimmtudaginn á Hlíðarenda og mun Anton Ari standa í rammanum í þeim leik.
Athugasemdir