Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 09. ágúst 2017 15:15
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 4. sæti: Liverpool
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Stjórinn Jurgen Klopp.
Stjórinn Jurgen Klopp.
Mynd: Getty Images
Mohamed Salah.
Mohamed Salah.
Mynd: Getty Images
Adam Lallana.
Adam Lallana.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Liverpool hafnar aftur í fjórða sæti ef spáin rætist.

Lokastaða síðasta tímabils: 4. sæti
Markahæstur á síðasta tímabili: Philippe Coutinho (14)

Sjá einnig:
Hlustaðu á Liverpool Innkastið

Útkeyrðir
Sumarglugginn hefur ekki gengið eftir áætlunum Liverpool og skráist sem misheppnaður. Enn er óvissa um stærstu stjörnu liðsins, Philippe Coutinho, sem Barcelona vill fá í sínar herbúðir. Liðið er á leið í Meistaradeildina og skortur á breidd í leikmannahópnum er enn áhyggjuefni.

Hollenski þjálfarinn Raymond Verheijen hefur verið duglegur að gagnrýna þjálfunaraðferðir Jurgen Klopp, stjóra Liverpool og segir að þær keyri leikmenn út. Hann segir að Klopp láti sína menn „hlaupa ofan í jörðina".

Verheijen er ekki hátt skrifaður af stuðningsmönnum Liverpool en það er ekki hægt að horfa framhjá meiðslavandræðunum og vandræðunum seinni hluta síðasta tímabils. Um áramót virtist Liverpool vera Englandsmeistaraefni en janúar og febrúar skiluðu einum sigri í sjö leikjum. Skyndilega var fjórða sætið besti hugsanlegi árangur.

Liðið virkaði þreytt og ófært um að sýna sömu vinnslu og það hafði gert fyrr á tímabilinu. Meiðslavandræði Jordan Henderson höfðu áhrif, Roberto Firmino gaf mikið eftir í lokin í fyrra og ljóst að það þarf að dreifa álagi hans betur.

Leikjaálagið verður væntanlega enn meira á þessu tímabili. Síðast þegar liðið var í Meistaradeildinni sótti það aðeins sjö stig úr sex leikjum sem komu strax eftir Meistaradeildarleiki.

Ekkert lið á síðasta tímabili fékk fleiri stig eða vann fleiri leiki en Liverpool eftir að hafa fengið fyrsta markið á sig. Liðinu gekk vel gegn toppliðum deildarinnar en voru í brasi með þau sem voru neðar á töflunni.

Stjórinn: Jurgen Klopp
Er að stíga inn í sitt annað heila tímabil með Liverpool. Stórskemmtilegur og litríkur þjálfari sem aðhyllist ákaflega áhorfsvænan fótbolta. Það tók hann ekki langan tíma að vinna stuðningsmenn Liverpool á sitt band.Þjóðverjinn er mikill skíðamaður og heimsótti Ísland fyrr á árinu til að renna sér niður brekkur.

Hvað þarf að gerast?
Liverpool hefur ekki leyst vandræðastöðuna í vinstri bakverði. James Milner þurfti að spila í þessari stöðu á síðasta tímabili þar sem Alberto Moreno var alls ekki treyst til þess. Miðvarðastöðurnar eru líka spurningamerki. Tilraunir til að fá Virgil van Dijk hafa ekki skilað árangri. Joel Matip lék vel á sínu fyrsta tímabili á Anfield en það vantar traustan mann við hans hlið. Aðeins West Ham fékk fleiri mörk á sig eftir einstaklingsmistök en Liverpool á síðasta tímabil.

Lykilmaður: Sadio Mane
Þegar Senegalinn var í landsliðsverkefnum eða meiddur var hans sárt saknað hjá Liverpool. Hann fór í Afríkukeppnina í janúar og þá hrapaði gengi liðsins, ekki einu sinni Coutinho gat haldið liðinu á beinu brautinni. Mane er beinskeyttur og svalur fyrir framan markið.

Fylgist með: Mohamed Salah
Kemur með aukna vídd og meiri hraða í sóknarleik Liverpool. Stuðningsmenn Liverpool eru spenntir fyrir Egyptanum sem átti frábært tímabil með Roma þar sem hann var duglegur að skora og leggja upp.

Komnir:
Mohamed Salah (Roma)
Dominic Solanke (Chelsea)
Andrew Robertson (Hull City)

Farnir:
Andre Wisdom (Derby County)
Lucas Leiva (Lazio)
Kevin Stewart (Hull City)

Þrír fyrstu leikir: Watford (A), Crystal Palace (H) og Arsenal (H)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. Liverpool 150 stig
5. Arsenal 142 stig
6. Tottenham 140 stig
7. Everton 128 stig
8. Southampton 111 stig
9. West Ham 110 stig
10. Stoke 89 stig
11 Leicester 85 stig
12. Newcastle 82 stig
13. Bournemouth 76 stig
14. West Bromwich Albion 69 stig
15. Crystal Palace 65 stig
16. Watford 40 stig
17. Burnley 33 stig
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner