Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 09. ágúst 2017 13:30
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 5. sæti: Arsenal
Lykilmaðurinn Lacazette.
Lykilmaðurinn Lacazette.
Mynd: Getty Images
Hinn umdeildi Arsene Wenger.
Hinn umdeildi Arsene Wenger.
Mynd: Getty Images
Rob Holding.
Rob Holding.
Mynd: Getty Images
Petr Cech og Arsene Wenger með Samfélagsskjöldinn sem Arsenal vann á dögunum.
Petr Cech og Arsene Wenger með Samfélagsskjöldinn sem Arsenal vann á dögunum.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Arsenal er spáð sama sæti og liðið endaði í síðasta tímabil.

Lokastaða síðasta tímabils: 5. sæti
Markahæstur á síðasta tímabili: Alexis Sanchez (30)

Sjá einnig:
Hlustaðu á Arsenal Innkastið

Tvístraðir stuðningsmenn
Stuðningsmannahópur Arsenal er tvískiptur. Þeir sem vilja Arsene Wenger burt hið snarasta og þeir sem standa með Frakkanum í gegnum súrt og sætt. Leikmenn Arsenal sögðu á síðasta tímabili að það ætti að kenna þeim um vonbrigði í deildinni, ekki stjóranum. Samt virtust þeir á vellinum alls ekki vera tilbúnir að leggja sig alla fram fyrir Wenger.

Ókyrrð myndaðist í kringum félagið og óvissa var um hvort Wenger myndi skrifa undir nýjan samning eða ekki. Sú leynd sem stjórn félagsins bjó til hjálpaði lítið. Á endanum hafnaði liðið í fimmta sæti og missti af Meistaradeildarsæti í fyrsta sinn í 20 ár.

Í Meistaradeildinni á síðasta tímabili þurfti Arsenal að þola niðurlægingu gegn Bayern München þar sem liðið tapaði samtals 10-2 í 16-liða úrslitum.

Það var aðeins einn leikmaður sem lýsti opinberlega yfir óánægju sinni með það hversu brothætt liðið væri og ósamkeppnishæft um enska meistaratitilinn og Meistaradeildina. Það var Alexis Sanchez sem hefur mikið verið í umræðunni í sumar og óvissa ríkt um hans framtíð hjá félaginu.

Arsenal náði að ljúka tímabilinu á flugi, Wenger breytti leikkerfinu og fór í þriggja manna vörn. Liðið vann síðustu fimm deildarleiki sína og tryggði sér bikarmeistaratitilinn í 13. sinn. Wenger var verðlaunaður með tveggja ára samningi sem hlaut misjöfn viðbrögð.

Stjórinn: Arsene Wenger
Wenger stendur með sínum leikmönnum í gegnum súrt og sætt. Hann hefur sýnt þeim traust og tryggð. Hann er fljótur að koma þeim til varnar í fjölmiðlum. Nú er kominn tími á að leikmenn endurgjaldi traustið og sjái til þess að "Wenger Out" borðarnir verði ekki eins áberandi um allan heim eins og þeir voru á síðasta tímabili. Hugmyndir hafa verið uppi um að Arsenal taki upp yfirmann fótboltamála en Wenger vill öllu ráða og blæs á þær hugmyndir.

Hvað þarf að gerast?
Efst á lista Arsenal yfir það sem þarf að gera er væntanlega að vinna stuðningsmenn aftur á sitt band. Það þarf að laga andrúmsloftið sem hefur verið ákaflega neikvætt. Metnaðarfull leikmannakaup hjálpa til við að gera stuðningsmenn glaða og Arsenal hakaði í það box með því að fá Alexandre Lacazette. Næst er að ná góðum árangri á vellinum. Liðið hefur blómstrað í 3-4-3 og allt bendir til þess að Wenger haldi í það kerfi. Það er ákveðið verkefni hjá honum að gæta þess að þátttaka í Evrópudeildinni trufli ekki liðið. Svo er spurning um hvort það eigi að fara að sleppa „sjálfunum" í klefanum nema þegar bikarar koma í hús?

Lykilmaður: Alexandre Lacazette
Wenger brást hratt við með því að kaupa Alexandre Lacazette frá Lyon þegar umræðan var hávær um að Arsenal þyrfti að fara að berjast um Englandsmeistaratitilinn. Veskið var opnað og hann fenginn á 52 milljónir punda, metfé hjá félaginu. Franski landsliðsmaðurinn hefur skorað 91 mark í frönsku deildinni síðustu fjögur tímabil. Það er þó spurning hvort koma hans sé nóg til að fá Arsenal í titilbaráttuna?

Fylgist með: Rob Holding
Arsenal íhugaði að lána Holding í janúar en sem betur fer gerðu þeir það ekki. 3-4-3 kerfið hefði líklega ekki virkað án þessa 21 árs varnarmanns og liðið hefði jafnvel ekki unnið FA bikarinn. Holding á bjarta framtíð og smellpassar í nýja vörn Arsenal. Yfirvegaður, snjall og með góða tæknilega getu. Holding er líklegur framtíðarfyrirliði Arsenal.

Komnir:
Sead Kolasinac (Schalke)
Alexandre Lacazette (Lyon)

Farnir:
Wojciech Szczesny (Juventus)
Emi Martinez (Getafe) Lán

Þrír fyrstu leikir: Leicester (H), Stoke (Ú) og Liverpool (Ú)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Arsenal 142 stig
6. Tottenham 140 stig
7. Everton 128 stig
8. Southampton 111 stig
9. West Ham 110 stig
10. Stoke 89 stig
11 Leicester 85 stig
12. Newcastle 82 stig
13. Bournemouth 76 stig
14. West Bromwich Albion 69 stig
15. Crystal Palace 65 stig
16. Watford 40 stig
17. Burnley 33 stig
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner