banner
   mið 09. ágúst 2017 10:15
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 7. sæti: Everton
Wayne Rooney er mættur aftur í blátt.
Wayne Rooney er mættur aftur í blátt.
Mynd: Getty Images
Ronald Koeman, stjóri Everton.
Ronald Koeman, stjóri Everton.
Mynd: Getty Images
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Michael Keane.
Michael Keane.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Everton er spáð sjöunda sæti.

Lokastaða síðasta tímabils: 7. sæti
Markahæstur á síðasta tímabili: Romelu Lukaku (26)

Gylfasagan endalausa
Sagan endalausa um Gylfa Sigurðsson heldur áfram. Viðræður Everton og Swansea hafa verið strembnar og flóknar. Nú berast fréttir af því að Ronald Koeman sé mjög pirraður út í forráðamenn Everton að hafa ekki enn landað íslenska landsliðsmanninum þegar nokkrir dagar eru í mót.

Gylfasagan gæti haldið áfram út mánuðinn en félagaskiptaglugganum verður lokað þegar september gengur í garð. Það er auðvelt að sjá af hverju Koeman leggur svona mikla áherslu á að fá Gylfa. Það þarf ekki annað en að horfa til mikilvægi hans fyrir Swansea og íslenska landsliðið og þá möguleika sem hann býður upp á. Meðal annars úr föstum leikatriðum.

Það hefur verið mikið að gera á skrifstofunni hjá Everton í sumar og félagið fengið markvörðinn Jordan Pickford, varnarmanninn Michael Keane og sóknarleikmennina Davy Klaassen og Sandro Ramires sem eru allir yngri en 25 ára og með pláss til að verða enn betri.

Það er risastórt skarð sem þarf að fylla. Romelu Lukaku, markakongur liðsins frá síðasta tímabili, er farinn til Manchester United og fróðlegt að sjá hvernig Everton höndlar brotthvarf hans.

Fylgist með: Wayne Rooney
Þrátt fyrir sögusagnir og vangaveltur í marga mánuði kom það samt á óvart þegar Rooney skrifaði undir samning við sitt gamla félag. Samband Rooney og stuðningsmanna Everton kólnaði hratt eftir að leikmaðurinn fór til Manchester United 2004. Ekki hjálpaði þegar Rooney kyssti merki United fyrir framan stuðningsmenn Everton á Goodison Park. En reiðin var fljót að fjara út og hann fékk hlýjar móttökur þegar hann klæddi sig aftur í búning Everton. Rooney er á leið niður brekkuna en hversu langt niður er hann kominn?

Stjórinn: Ronald Koeman
Umtöluðustu kaup Everton í sumar voru klárlega á Rooney. Margir efast um að Rooney hafi nægilega mikið á tanknum til að spila í úrvalsdeildinni næstu árin. Koeman er ekki sammála þeim.

„Wayne hefur sýnt að hann hefur metnaðinn og er mikill sigurvegari. Hann kann að vinna titla og ég er mjög ánægður með að hann ákvað að ganga til liðs við okkur. Hann elskar Everton og vildi ólmur koma aftur. Hann er ennþá bara 31 árs gamall og ég efast ekkert um hæfileika hans. Það er frábært að hann sé kominn," segir Koeman.

Hvað þarf að gerast?
Það eru miklar breytingar á leikmannahópi Everton og hópurinn gæti breyst enn frekar fyrir gluggalok. Liðið þarf líklega á tíma og þolinmæði til að smella saman eftir allar þessar breytingar þó hæfileikarnir í hópnum séu klárlega til staðar. Liðið fær þungavigtardagskrá í byrjun en Manchester City, Chelsea, Spurs og Manchester United eru mótherjar í fyrstu fimm deildarleikjunum. Koeman og félagar mega ekki að hafa of miklar áhyggjur þó stigasöfnunin verði hæg til að byrja með. Á síðasta tímabili náði Everton í 43 stig á heimavelli en það er besta stigasöfnun á Goodison Park síðan 1989-90. Á útivöllum unnust bara fjórir leikir.

Lykilmaður: Idrissa Gueye
Fékk ekki það hrós sem hann átti skilið fyrir frammistöðu sína á síðasta tímabili. Everton heldur áfram að reiða sig á miðjumanninn öfluga. Enginn leikmaður fór í fleiri tæklingar en þessu 27 ára Senegali á síðasta tímabili.

Komnir:
Jordan Pickford (Sunderland) £25m
Davy Klaassen (Ajax) €27m
Sandro Ramirez (Malaga)
Michael Keane (Burnley) £30m
Wayne Rooney (Man Utd)
Cuco Martina (Southampton)

Farnir:
Tom Cleverley (Watford)
Conor McAleny (Fleetwood Town)
Gerard Deulofeu (Barcelona)
Brendan Galloway (Sunderland) Lán
Tyias Browning (Sunderland) Lán
Romelu Lukaku (Man Utd)
Aiden McGeady (Sunderland)
Matthew Pennington (Leeds United) Lán
Kieran Dowell (Nottingham Forest) Lán

Þrír fyrstu leikir: Stoke (H), Man City (Ú) og Chelsea (Ú)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. Everton 128 stig
8. Southampton 111 stig
9. West Ham 110 stig
10. Stoke 89 stig
11 Leicester 85 stig
12. Newcastle 82 stig
13. Bournemouth 76 stig
14. West Bromwich Albion 69 stig
15. Crystal Palace 65 stig
16. Watford 40 stig
17. Burnley 33 stig
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner