Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   þri 09. september 2014 13:00
Magnús Már Einarsson
Grétar Rafn: Skipulagið fer fljótt út um gluggann hjá Tyrkjum
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Grétar á landsliðsæfingu.
Grétar á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arda Turan er lykilmaður í tyrkneska liðinu.
Arda Turan er lykilmaður í tyrkneska liðinu.
Mynd: Getty Images
Grétar Rafn Steinsson, fyrrum leikmaður íslenska landsliðsins, er bjartsýnn fyrir leikinn gegn Tyrkjum í undankeppni EM í kvöld. Grétar spilaði með Kayserispor í Tyrklandi á þarsíðasta tímabili og þekkir vel til tyrkneska boltans.

,,Það getur verið erfitt að leikgreina hvernig Tyrkirnir spila. Af minni eigin reynslu skiptir ekki máli hvernig leikurinn var settur upp því að þeir eru mjög ákafir. Þeir fara í boltann og hlaupa út um allt. Skipulagið fer mjög fljótt út um gluggann," sagði Grétar við Fótbolta.net í dag.

,,Ef þeir fá mark á sig þá veistu ekkert hvað þú færð. Ef við skorum mark þá getum þess vegna skorað 2-3 í viðbót. Þá er ekkert skipulag."

,,Ef að þeir skora hins vegar 1-2 mörk þá spila þeir eins og Brasilía og ætla að halda boltanum. Þetta eru gífurlega hæfileikaríkir leikmenn og þeir leggja sig fram þó að það sé ekki mikið skipulag."


Pressa óskipulega
Tyrkir unnu Dani 2-1 í vináttuleik í síðustu viku. ,,Ef þeir hápressa eins og í seinni hálfleiknum gegn Dönum þá verður þetta erfitt fyrir okkur. Þeir pressa óskipulega og á mörgum mönnum og ef við náum að spila inn í pressuna og út úr henni þá geta legið möguleikar þar."

Gökhan Gönül og Caner Erkin, bakverðir Fenerbache spila sem bakverðir hjá tyrkneska landsliðinu en þeir eru mjög sókndjarfir.

,,Hægri bakvörðurinn hefur spilað í mörg ár sem hægri bakvörður en hann er samt hærra á vellinum en kantmaðurinn. Vinstri bakvörðurinn er kantmaður að upplagi þannig að einn á móti einum eru þeir ekki sérstaklega sterkir. Þeir eru ekki oft í sínum stöðum. Þeir eru oft mun hærra á vellinum."

Arda Turan ekki jafn góður með landsliðinu
Arda Turan, miðjumaður Atletico Madrid, er skærasta stjarna Tyrkja en hann hefur ekki alltaf náð að sýna sitt rétta andlit með landsliðinu.

,,Þegar ég var í Tyrklandi var hann mikið gagnrýndur fyrir að leggja sig ekki jafnmikið fram fyrir Tyrkland og Atletico Madrid," sagði Grétar sem telur að íslenska liðið eigi góðan möguleika í kvöld.

,,Þetta er leikur sem við getum unnið og eigum að fara í til að vinna. Með hugarfarið sem er í kringum liðið þá er þetta leikur sem við eigum fulla möguleika í. Ég tel að framlínan okkar eigi að geta skorað mörk á móti þeim. Ef við gerum eins fá mistök og mögulegt er þá getum við unnið leikinn."
Athugasemdir
banner
banner
banner