Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   þri 09. september 2014 21:14
Magnús Már Einarsson
Heimir Hallgríms: Nánast fullkominn leikur
Heimir á hliðarlínunni í kvöld.
Heimir á hliðarlínunni í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslendingar fagna í kvöld.
Íslendingar fagna í kvöld.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
,,Þetta var nánast fullkominn leikur," sagði Heimir Hallgrímsson annar af landsliðsþjálfurum Íslands hæstánægður á fréttamannafundi eftir magnaðan 3-0 sigur á Tyrkjum í kvöld.

,,Við þjálfararnir erum að fylgjast með hreyfingum leikmanna, hvar menn eru að loka svæðum og hættum hjá þeim. Þeir voru nánast með fimm menn frammi en við náðum að færa varnarmenn okkar þannig að þeir náðu ekki að skapa teljandi færi. Þeir voru síðan galopnir til baka og við fengum fullt af færum. Það er sjaldan sem Ísland fær svona mikið af góðum færum gegn jafn góðri þjóð og í dag."

,,Við vorum búnir að stúdera það hvernig þeir spila upp. Við náðum að stela þessum sendingum sem þeir nota til að opna leikinn. Þeir virtust ekki vera með plan B. Þeir breyttu ekki leikskipulaginu sínu og þetta var nokkuð þægilegt að því leyti fyrir okkur. Við þurftum ekkert að breyta neitt leikskipulaginu okkar á meðan leiknum stóð."

Jón Daði og Elmar fá hrós
Jón Daði Böðvarsson kom inn í fremstu víglínu og skoraði í sinum fyrsta mótsleik með íslenska landsliðinu.

,,Við vorum að hugsa hver gæti tekið þá stöðu. Það er eiginlega ósanngjarnt að taka einhvern út eftir svona leik. Maður verður samt að tala um Jón Daða em er að koma í fyrsta skipti í alvöru leik hjá okkur sem og Theódór Elmar í hægri bakvarðar stöðunni. Báðir skiluðu sínu frábærlega. Það er frábært þegar þjálfarar taka ákvörðun sem er umdeild og það gengur svona vel upp."

Jón Daði skoraði með skalla eftir hornspyrnu en föstu leikatriðin voru góð hjá íslenska liðinu í kvöld.

,,Við æfðum föst leikatriði fyrir leikinn. Við höfum bara skorað eitt mark úr horni í 24 leikjum fyrir þennan leik. Þetta voru flottar spyrnur í dag. Það er gaman þegar það gengur upp sem þú ert að æfa. Það gekk allt vel upp í dag sem þjálfararnir lögðu upp og það er ekki hægt annað en að vera hamingjusamur þjálfari."

Ætlum ekki að brenna okkur aftur
Fyrir leikinn æfði íslenska liðið einnig 3-5-2 og það er kerfi sem kom til greina fyrir leik að sögn Heimis. Á endanum var ákveðið að halda sig við 4-4-2.

,,Við tókum nokkrar æfingar í því (3-5-2) og það er ágætt að eiga það leikkerfi inni. Það er ekki oft sem gefast svona margir æfingadagar. Það góða við að við spiluðum ekki æfingaleik var að við fengum aukadaga til æfinga."

Tékkland vann Holland einnig í kvöld en Heimir segist lítið spá í þeim úrslitum.

,,Mér er alveg sama hvernig sá leikur fór svo framarlega sem við vinnum okkar leiki. Við ætlum að vera í tveimur efstu sætunum og þetta er fullkomin byrjun. Við unnum Noreg í fyrsta leik í síðustu keppni en töpuðum síðan úti gegn Kýpur sem áttu að vera slakari. Við verðum klárlega með það í höfðinu þegar við förum í næsta útileik. Við ætlum ekki að brenna okkur tvisvar á sama hlutnum að eiga slakan leik á eftir góðum."
Athugasemdir
banner
banner