þri 09. september 2014 20:37
Alexander Freyr Tamimi
Undankeppni EM: Ísland rúllaði yfir Tyrkland
Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ og Lars Lagerback landsliðsþjálfari fagna sigrinum eftir leik. Þorvaldur Ingimundarson starfsmaður KSÍ í forgrunni.
Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ og Lars Lagerback landsliðsþjálfari fagna sigrinum eftir leik. Þorvaldur Ingimundarson starfsmaður KSÍ í forgrunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland 3 - 0 Tyrkland
1-0 Jón Daði Böðvarsson ('18)
2-0 Gylfi Þór Sigurðsson ('76)
3-0 Kolbeinn Sigþórsson ('77)
Rautt spjald: Ömer Toprak, Tyrkland ('59)

Ísland vann ótrúlegan 3-0 sigur gegn Tyrklandi í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2016 þegar liðin mættust á Laugardalsvelli í kvöld.

Strákarnir okkar voru einfaldlega mun betri aðilinn í leiknum og átti sterkt lið Tyrklands aldrei séns.

Eftir frábæra byrjun komust heimamenn verðskuldað yfir með marki frá Jóni Daða Böðvarssyni, sem skallaði boltann í netið á 18. mínútu eftir hornspyrnu frá Gylfa Þór Sigurðssyni. Skömmu áður hafði Jón Daði átt skalla í slána.

Ísland hefði hæglega getað bætt við marki í fyrri hálfleiknum en tókst það þó ekki og staðan enn 1-0 þegar flautað var til leikhlés.

Í seinni hálfleik urðu Íslendingar svo manni fleiri eftir að Ömer Toprak fékk sitt annað gula spjald fyrir glórulausa hendi á 59. mínútu.

Yfirburðir Íslands urðu enn meiri eftir að þeir urðu ellefu gegn tíu og gengu á lagið með tveimur mörkum á tveimur mínútum frá Gylfa Þór Sigurðssyni og Kolbeini Sigþórssyni.

Ekki urðu mörkin fleiri og stórkostlegur 3-0 sigur Íslands staðreynd. Tyrkland átti aldrei séns og strákarnir okkar byrja nýja undankeppni eins vel og hægt væri að ímynda sér.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner