Marian Pahars, landsliðsþjálfari Letta, hóf fréttamannafund sinn á Laugardalsvelli í dag á því að óska Íslendingum til hamingju með sætið á EM í Frakklandi næsta sumar.
„Ég vil fyrsta af öllu óska ykkur til hamingju. Þetta er frábært afrek hjá þjóðinni," sagði Pahars en hann spilaði á sínum tíma í fremstu víglínu Southampton.
„Það er frábært að sjá hvað þið hafið afrekað. Þið hafið frábæra þjálfara og mjög góða leikmenn."
Pahars var spurður út í það hvort hann væri hissa á velgengni Íslands í undankeppninni.
„Það er erfitt að segja hvort ég sé hissa eða ekki. Fyrir undankeppnina hugsuðum við ekki um að þetta yrði niðurstaðan og enginn bjóst við að Holland myndi mögulega missa af sæti í lokakeppninni."
„Það er margt óvænt í fótboltanum. Ég myndi ekki segja að árangur Íslands sé óvæntur en ég bjóst kannski ekki við þessu í byrjun í undankeppninni. Eftir fyrstu leikina sá ég mguleika á að þetta myndi gerast."
Athugasemdir