mán 09. október 2017 20:44
Magnús Már Einarsson
Miðasala á staka leiki Íslands fer fram í desember og janúar
Hægt að kaupa miða sem gildir á allt mótið núna
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hægt verður að sækja um miða á staka leiki Íslands á HM í Rússlandi frá 5. desember-31. janúar næstkomandi.

Fram á fimmtudag er hins vegar hægt að sækja um passa sem gildir á alla leiki Íslands á HM (follow your team). Fyrsta kaflanum í miðasölunni lýkur á fimmtudag.

Dregið verður í riðla fyrir HM þann 1. desember og í kjölfarið skýrist í hvaða borgum Ísland spilar. Langar vegalengdir verða á milli leikvalla í Rússlandi.

Á EM í Frakklandi í fyrra fengu Íslendingar nokkur þúsund miða á hvern leik. KSÍ hefur ekki fengið upplýsingar um mögulegan fjölda miða fyrir HM.

„Við erum lítið byrjuð að kynna okkur miðasölumál fyrir Rússland. Við fáum væntanlega boð á miðasölunámskeið eins og fyrir Frakkland," sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við Fótbolta.net fyrir leikinn við Kosóvó í kvöld.

Næstkomandi fimmtudag lýkur fyrsta kafla miðasölunnar en þar er hægt að sækja um miða á leiki í ákveðnum borgum sem og pasa sem gildir á alla leiki Íslands (follow your team).

5. desember er síðan hægt að byrja að sækja um miða á ákveðna leiki. Frá 18. apríl verða síðan ósóttir miðar og aukamiðar til sölu áður en HM hefst í Rússlandi þann 14. júní.
Athugasemdir
banner