mið 10. janúar 2018 11:32
Magnús Már Einarsson
KSÍ styrkir Tólfuna á HM - Tíu meðlimum boðið á hvern leik
Icelandair
Tólfan kemur....
Tólfan kemur....
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
KSÍ samþykkti á stjórnarfundi í gær að styrkja stuðningssveitina Tólfuna vegna HM í Rússlandi í sumar. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfesti þetta í samtali við Fótbolta.net í dag.

KSÍ mun styrkja Tólfuna með þeim hætti að tíu meðlimum úr stuðningsmannasveitinni verður boðið á hvern leik á HM. Þeirra hlutverk er að stjórna stemningunni hjá íslensku stuðningsmönnunum.

„Stjórn KSÍ er einhuga í því að styrkja Tólfuna. KSÍ gerir sér fyllilega grein fyrir hinu mikilvæga hlutverki sem Tólfan hefur að gegna á leikjum íslensku landsliðanna," sagði Klara við Fótbolta.net í dag.

Tólfan vakti mikla athygli fyrir stuðning sinn á EM í Frakklandi árið 2016 sem og á EM kvenna í fyrra. Þá styrkti KSÍ einnig stuðningsmannasveitina á einhvern hátt.

„Við gerðum sambærilega hluti á EM í Frakklandi og EM kvenna í Hollandi en það var ekki jafn formlegt. Núna ætlum við að gera þetta á formlegan hátt með samningi við Tólfuna," sagði Klara.

Klara fundar með Tólfunni á næstunni til að ganga frá útfærsluatriðum á samningnum.

Leikir Íslands á HM:
16. júní Argentína - Ísland
22. júní Nígería - Ísland
26. júní Ísland - Króatía
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner