Marteinn Ægisson formaður knattspyrnudeildar Þróttar úr Vogum og Leifur Grímsson framkvæmdastjóri Vogabæjar undirrita samninginn. Með þeim á myndinni eru Ríkharður Reynisson starfsmaður Vogabæjar og Reynir Þór Valsson markahæsti leikmaður Þróttar frá upphafi.
Knattspyrnudeild Þróttar úr Vogum og Vogabær ehf. gerðu um helgina með sér samning þess efnis að heimavöllur félagsins mun heita Vogabæjarvöllur næstu tvö árin.
Samningurinn var handsalaður af Marteini Ægissyni, formanni knattspyrnudeildar Þróttar og Leif Grímssyni framkvæmdarstjóra Vogabæjar í getraunakaffi félagsins síðasta laugardag.
,,Vogabær ehf. verður einn af aðalstyrktaraðilum deildarinnar næstu tvö árin. Til að standa undir sér er félagið rekið á duglegum sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum til að styrkja deildina. Því er þetta mikill hvalreki fyrir deildina," segir í yfirlýsingu sem Þróttarar sendu frá sér um helgina.
Aðspurður lýsti Marteinn formaður knattspyrnudeildar Þróttar mikilli ánægju með þennan samning og vildi við sama tækifæri hvetja Vogamenn, nær og fjær, til að vera duglega að leggja leið sína á Vogabæjarvöll á komandi sumri og styðja liðið.
Leifur Grímsson sagði við þetta sama tilefni að það væri mikill heiður fyrir Vogabæ ehf að fá að taka þátt í þessu uppbyggingarstarfi með Þrótturum og lýsti því einnig yfir hve ánægður hann væri með kraftinn í félaginu.
Vogabær ehf. er matvælafyrirtæki sem framleiðir sósur og ídýfur fyrir matvörumarkaði og skyndibitastaði. Fyrirtækið var upphaflega stofnað sem verslun árið 1976 en árið 1985 hófst framleiðsla á ídýfum og sósum undir nafninu Voga. Vogabær ehf. býr yfir áralangri reynslu í sósugerð.
Athugasemdir