Keflavík
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Inkasso-deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1.
2. Keflavík, 133 stig
3. ÍA 127 stig
4. Haukar, 123 stig
5. Fjölnir, 87 stig
6. Þróttur, 77 stig
7. ÍR, 65 stig
8. Afturelding/Fram, 58 stig
9. Hamrarnir, 48 stig
10. Sindri, 23 stig
2. Keflavík
Lokastaða í fyrra: 4. sæti í 1.deild. Keflavík gerði atlögu að Pepsi-deildar sæti í fyrra en endaði mótið í 4. sæti.
Þjálfarinn: Reynsluboltinn Gunnar Magnús Jónsson er á sínu þriðja tímabili með Keflavík. Hann hefur stýrt liðinu í toppbaráttu tvö síðustu sumar og það verður gaman að sjá hvernig honum tekst til með liðið í ár.
Styrkleikar: Keflavík hefur spilað vel í vetur og vor og fer með sjálfstraust inn í mótið eftir að hafa unnið C-deild Lengjubikarsins. Ungu heimastúlkurnar eru orðnar árinu eldri og reyndari og erlendu leikmennirnir sem léku með liðinu í fyrra verða allar áfram. Blandan er öflug og með einn besta varnarmann deildarinnar í Natöshu Anasi og mikinn hraða fram á við á Keflavíkurliðið að geta gert harða atlögu að Pepsi-deildar sæti.
Veikleikar: Keflavíkurliðið treystir mjög á erlendu leikmennina og það vantar breidd til að styðja við gríðarsterkt byrjunarliðið. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig gengur ef það koma upp meiðsli eða leikbönn. Þá hefur sóknarleikurinn verið heldur einhæfur og einkennst mikið af löngum boltum upp á Sveindísi Jane.
Lykilmenn: Natasha Anasi, Aníta Lind Daníelsdóttir, Mairead Clare Fulton
Gaman að fylgjast með: Nafnið á Sveindísi Jane Jónsdóttur er löngu orðið þekkt hér heima. Hún er frábær senter sem hefur skorað 37 mörk í 42 leikjum fyrir Keflavík þrátt fyrir ungan aldur. Hún spilaði meidd allt síðasta sumar og náði ekki að sýna sínar bestu hliðar. Þrátt fyrir það var hún eftirsótt af Pepsi-deildarliðum auk þess sem ítalskt félag vildi fá hana í sínar raðir enda hæfileikarnir ótvíræðir. Hún ákvað að vera áfram í Keflavík og er búin að jafna sig af meiðslunum. Það verður því eflaust mjög gaman að fylgjast með Sveindísi í sumar.
Gunnar þjálfari um spánna og sumarið:
„Spáin er í nokkuð eðlilegu samhengi við gengi okkar á undirbúningstímabilinu. Við sem komum að liðinu höfum mikla trú á því starfi sem er í gangi í Keflavík og ánægjulegt að aðrir séu á sama máli.“
„Mér líst mjög vel á deildina í ár. Hún verður án vafa sterkari en í fyrra þar sem nú er komið meiri jafnvægi á deildirnar, eftir að fjölgað var um eina deild í fyrra. Gæðin í kvennaboltanum eru að aukast mikið hér á landi, munurinn á milli liða í neðri hluta Pepsi deildarinnar og sterkari liða í Inkasso hefur minnkað. Því til undirstrikunnar er sigur Fylkis í B-deild Lengjubikarsins í ár en þar voru fjögur lið úr Pepsi sem Fylkir skákaði. Einnig frábært að fá Inkasso nafnið inn sem gerir deildina vissulega meira aðlaðandi, stórt prik til Inkasso og KSÍ. Auk þess mjög jákvætt fyrir vallarstarfsmenn í Keflavík sem þurfa ekki að taka Inkasso auglýsingaskiltin niður af Nettó-vellinum í ár"
Finnst þér vera pressa á Keflavík að komast upp í sumar?
„Eftir að hafa verið í toppbaráttu síðastliðin tvö keppnistímabil þá er eðlilegt að stefna á að gera enn betur og komast upp um deild. Það er því vissulega pressa á liðinu, en ef íþróttalið ætla sér stóra hluti þarf að höndla pressuna sem því fylgir.“
Er von á frekari liðsstyrk til Keflavíkur?
„Nei. Við höldum áfram að byggja upp á okkar ungu heimastelpum með góðri erlendri styrkingu, leikmannahópurinn er stór og hefur lítið breyst síðastliðin tvö ár.“
Komnar:
Dagmar Mýrdal Gunnarsdóttir frá ÍR
Farnar:
Jóney Ósk Sigurjónsdóttir til Völsungs
Margrét Ingþórsdóttir til Fjölnis
Margrét Hulda Þorsteinsdóttir til Grindavíkur
Fyrstu leikir Keflavíkur:
10. maí ÍR - Keflavík
16. maí Keflavík - Fjölnir
25. maí Þróttur - Keflavík
Athugasemdir