Martin Eyjólfsson þekkja margir fótboltaáhugamenn sem bjargvættinn eftir að hann bjargaði ÍBV frá falli á ævintýralegan hátt tvö ár í röð 1992 og 1993. Hann er í dag sendiherra Íslands í Genf og hefur verið að aðstoða íslenska landsliðið með æfingasvæðið í Annecy sem er skammt frá Genf.
„Þetta hefur verið í mýflugumynd en ég kíkti hingað á þetta svæði í október og nóvember, smellti nokkrum myndum af og talaði við mann og annan," sagði Martin við Fótbolta.net í dag.
„Svo í kjölfarið komu þeir og tóku þetta allt saman út. Þetta var fyrsta snertingin. Ef þetta er í lagi þá er þetta á mína ábyrgð en annars ekki," sagði hann og hló.
„Þeir þurftu að gera ákveðnar breytingar og settu dren í völlinn. Þeir fengu til þess 70 þúsund evrur frá UEFA. Þeir eru búnir að gera mikla bragabót á aðstöðunni og eru mjög stoltir af því að hýsa Íslendingana."
Martin er sem fyrr segir þekktur sem bjargvætturinn, er ekkert búið að ræða við hann um að bjarga einhverju?
„Ég er í bolnum innanundir," sagði Martin og hélt áfram. „Þegar ég kom að þessu verkefni vakti ég athygli á mér og Lars lofaði að hafa mig í huga ef ég myndi koma mér í form en ég held ég hafi sjálfur klúðrað því. Ætli ég hafi ekki verið 15-20 kílóum léttari í gamla daga."
„Við vorum að grínast með þetta þegar ég sendi skýrslurnar heim og Lars kom aðeins inn í það og þegar ég lagði fram mína beiðni sagði hann; Góður leiðtogi þarf alltaf að vera tilbúinn til að endurskoða sinn hug. Svo ef ég myndi standa mína plikt þá væri aldrei að vita. Það er alltaf gaman að geta gert svona græskulaust grín það þarf að vera húmor í þessu."
Fyrsti leikur Íslands er gegn Portúgal á þriðjudaginn og Martin á von á sigri.
„Við erum með mjög skipulagt lið og það er okkar styrkleiki. Ef við höldum aganum og skipulaginu og spilum með hjartanu þá er ég mjög bjartsýnn á að við tökum Portúgalina 1-0. Eigum við ekki að segja að Gylfi smelli honum af 25 metrunum."
Ert þú á EM-flakki um Frakkland?
— Fótboltinet (@Fotboltinet) June 10, 2016
Hvetjum fólk til að nota kassamerkið #fotboltinet fyrir myndir og annað efni! pic.twitter.com/BqSlsy0eGV
Athugasemdir