Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 10. ágúst 2017 16:30
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 2. sæti: Man Utd
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho.
Jose Mourinho.
Mynd: Getty Images
Paul Pogba.
Paul Pogba.
Mynd: Getty Images
Varnarmaðurinn Victor Lindelöf.
Varnarmaðurinn Victor Lindelöf.
Mynd: Getty Images
Romelu Lukaku.
Romelu Lukaku.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni höfum við verið að kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Nú er komið að öðru sætinu en þar má finna Rauðu djöflana.

Lokastaða síðasta tímabils: 6. sæti
Markahæstur á síðasta tímabili: Zlatan Ibrahimovic (27)

Sjá einnig:
Hlustaðu á Manchester United Innkastið

Lukaku ráðinn til að skora
Þegar upp var staðið var enska úrvalsdeildin í aukahlutverki hjá Manchester United á síðasta tímabili. Þar var niðurstaðan sjötta sætið. Stór vonbrigði miðað við hverju hafi verið tjaldað til. Í öðrum keppnum gekk betur. Meistaradeildarsæti náðist með því að vinna Evrópudeildina og Jose Mourinho náði enn einu sinni að lyfta deildabikarnum.

Það er hægt að taka margt jákvætt úr síðasta tímabili en nú verður að taka næsta skref. Krafan er sú að United geri sig gildandi í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar og sýni í Meistaradeildinni að liðið sé á réttri leið í hóp þeirra bestu í Evrópu.

Til þess að hjálpa til við þessi markmið náist er Romelu Lukaku mættur til að leiða línuna. Hann er ráðinn í vinnu á Old Trafford við að skora mörk sem færa United sigra, svo einfalt er það. Zlatan Ibrahimovic var í því starfi á síðasta tímabili og stóð sig vel en er nú óvinnufær. Svíinn var fenginn sem skammtímalausn en eftir á að hyggja er fyndið að hugsa til þess hversu margir efuðust um að hann gæti gert góða hluti í enska boltanum.

Með 24 ára Lukaku, 19 ára Marcus Rashford og 21 árs Anthony Martial er United með leikmenn sem gætu mögulega reynst sóknarþungi liðsins í mörg ár. En stjóri liðsins er nú reyndar ekki þekktur fyrir að spila á of mörgum sóknarmönnum. Stuðningsmenn United krossleggja fingur og vonast til að hæfileikar Martial springi út og skili sér á vellinum. Þessi frábæri leikmaður lék langt langt undir væntingum á síðasta tímabili.

Með Henrikh Mkhitaryan, Juan Mata og Paul Pogba í sínum röðum ætti þjónustan fyrir fremstu menn að vera til staðar.

Aðeins Tottenham fékk færri mörk á sig á síðasta tímabili. Sóknarlega voru þó sárafáar flugeldasýningar. Bournemouth skoraði fleiri mörk en United og alveg ljóst að stuðningsmenn Rauðu djöflanna geri kröfur á skemmtilegri sóknarbolta á þessu tímabili.

Stjórinn: Jose Mourinho
Portúgalinn sigursæli fangar fyrirsagnirnar ítrekað enda liggur hann ekki á skoðunum sínum. Hann er óhræddur við að gagnrýna leikmenn sína opinberlega en afar skiptar skoðanir eru á þessari nálgun hans. Sóknarleikurinn sem Manchester United bauð upp á síðasta tímabil var oft mjög fyrirsjáanlegur. Eitthvað sem þarf að laga.

Hvað þarf að gerast?
Þrátt fyrir að hafa eytt háum fjárhæðum í sóknarleikmenn skoraði United færri mörk á síðasta tímabili en liðið gerði undir stjórn David Moyes 2013-14. Liðið fór illa með mörg frábær færi á mikilvægum augnablikum. Oft gekk illa að skora gegn varnarsinnuðum liðum og liðið var of gjarnt að fá sig mörk seint í leikjum. Nú er Victor Lindelöf kominn í vörnina og fróðlegt að sjá hvernig hann finnur sig í enska boltanum. Heimavöllurinn var líka litlu að skila og félagið þarf að gera hann að alvöru vígi á nýjan leik. Í dag mæta lið á Old Trafford og trúa því að þau fari ekki tómhent heim.

Lykilmaður: Ander Herrera
Besti leikmaður Manchester United á síðasta tímabili. Endurspeglar ákveðnina, þrautseigjuna og leikgleðina sem stuðningsmenn og stjórinn hans vilja sjá. Stuðningsmenn Manchester United elska Spánverjann en hann er oft vanmetinn af öðrum. Ef hann nær meiri stöðugleika í frammistöðu sína þegar kemur að sköpun fram á við þá verður þetta hans besta tímabil.

Fylgist með: Paul Pogba
Átti marga mjög góða leiki með Manchester United á sínu fyrsta tímabili en menn vilja alltaf meira. Hann þarf að gera betur í stórleikjunum. Nú þegar Nemanja Matic er kominn frá Chelsea gæti Pogba fengið meira frjálsræði til að taka þátt í sóknarleiknum og þá koma kannski hans bestu hliðar í ljós.

Komnir:
Victor Lindelöf (Benfica)
Romelu Lukaku (Everton)
Nemanja Matic (Chelsea)

Farnir:
Wayne Rooney (Everton)
Adnan Januzaj (Real Sociedad)
Sam Johnstone (Aston Villa) Lán
Cameron Borthwick-Jackson (Leeds) Lán
Timothy Fosu-Mensah (Crystal Palace) Lán

Þrír fyrstu leikir: West Ham (H), Swansea (Ú) og Leicester (Ú)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. Manchester City 176 stig
2. Manchester United 168 stig
3. Chelsea 165 stig
4. Liverpool 150 stig
5. Arsenal 142 stig
6. Tottenham 140 stig
7. Everton 128 stig
8. Southampton 111 stig
9. West Ham 110 stig
10. Stoke 89 stig
11 Leicester 85 stig
12. Newcastle 82 stig
13. Bournemouth 76 stig
14. West Bromwich Albion 69 stig
15. Crystal Palace 65 stig
16. Watford 40 stig
17. Burnley 33 stig
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner