Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 10. ágúst 2017 15:16
Magnús Már Einarsson
Þórður Steinar: Er í skegg keppni við pabba
Þórður Steinar vígalegur í leiknum í gær.
Þórður Steinar vígalegur í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: blikar.is
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Þórður Steinar Hreiðarsson spilaði sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni í meira en tvö ár þegar hann byrjaði í vörn Breiðabliks gegn Stjörnunni í gærkvöldi.

Þórður lék með Val í byrjun sumars 2015 áður en hann fór í Þór þar sem hann spilaði út sumarið. Í fyrra var hann í fríi frá boltanum.

„Ég hætti eftir tímabilið með Þórsurunum 2015 og var alveg í frí 2016. Ég var með vinum mínum í battabolta einu sinni í viku í fyrra og tók eina og eina æfingu utan þess," sagði Þórður í viðtali við Fótbolta.net í dag.

Stóð ekki til að gera samning
Olgeir Sigurgeirsson, núverandi aðstoðarþjálfari Breiðabliks, plataði Þórð síðan til að taka fram skóna í vor. Þá var Olgeir að þjálfa Augnablik í 4. deildinni.

„Olli hringdi í mig í mars eða apríl og spurði hvort ég væri ekki tilbúinn að taka slaginn með Augnabliki. Það gekk nokkuð vel," sagði Þórður en hann gekk í raðir Augnabliks í júlí.

„Þegar allt snerist í höndunum á Blikunum þá fékk ég símtalið frá Olla. Ég var beðinn um að koma og bæta í æfingahópinn. Það stóð ekki til að gera samning en síðan gerast hlutirnir hægt."

Komst yfir vegg á 35. mínútu
Þórður spilaði 58 mínútur í gær áður en Sveinn Aron Guðjohnsen kom inn á fyrir hann.

„Ég lenti á vegg á 35. mínútu en komst yfir veginn. Ég hefði getað verið áfram inn á en ég var sammála skiptingunni og mér fannst hún vera skynsamleg. Ég hefði getað verið áfram inn á og gert mitt besta en ég er ekki viss um að það hefði verið jafn gott og hjá Sveini Aroni."

Með teygju í skegginu
Þórður er með stórt og mikið skegg og það hefur vakið mikla athygli.

„Ég hef aldrei haft gaman að þessari umræðu áður en núna finnst mér þetta skemmtilegt. Það er gaman að manni sé veitt athygli. Ég ætla ekkert að hætta þessu, ekki nema Milos (Milojevic, þjálfari Breiðabliks) komi með skilaboð einn daginn. Hann er alltaf vel snyrtur," sagði Þórður en hann er í skegg keppni.

„Ég hef safnað í tæp tvö ár. Við pabbi erum í keppni. Hann er eins og jólasveinn með hvítt skegg," sagði Þórður og hló. „Ég má ekki raka mig fyrr en hann rakar sig."

Þórður setti teygju neðst í skeggið fyrir leikinn í gær eins og sjá má á myndinni efst í fréttinni.

„Ég var að velta því fyrir mér hvort það yrði tosað frekar í það þá en mér fannst það vera ólíklegt. Ég setti teygju til að þetta fari ekki upp í mann og svona, það getur verið vesen," sagði Þórður og skellti upp úr.
Athugasemdir
banner
banner
banner