Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fim 10. ágúst 2017 18:50
Elvar Geir Magnússon
Tryggvi Hrafn kominn til Halmstad (Staðfest)
Tryggvi Hrafn í landsliðsbúningnum.
Tryggvi Hrafn í landsliðsbúningnum.
Mynd: Getty Images
Skagamaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson hefur gengið í raðir sænska úrvalsdeildarfélagsins Halmstad. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins og kemur fram að Tryggvi hefji samstundis æfingar ytra.

Það er því ljóst að ÍA hefur misst mikilvægan hlekk úr leikmannahópi sínum en liðið vermir botnsæti Pepsi-deildarinnar og miklar líkur á að liðið falli úr deildinni.

Tryggvi er sóknarmaður og hefur skoraði sjö mörk í fimmtán leikjum í deild og bikar með ÍA í sumar.

Þessi 21 árs leikmaður vakti athygli með Skagamönnum í Pepsi-deildinni í fyrra og hefur á þessu ári leikið þrjá leiki með U21-landsliði Íslands.

Þá lék hann sinn fyrsta A-landsleik í febrúar á þessu ári þegar hann spilaði með í 1-0 tapi gegn Mexíkó í vináttulandsleik í Bandaríkjunum.

„Þetta er sóknarleikmaður sem er með hraða með knöttinn. Hann fer strax í samkeppni um sæti í byrjunarliðinu," segir Igor Krulj, þjálfari Halmstad um Tryggva.

Tryggvi segir við heimasíðu Halmstad að hann telji sig tilbúinn að taka það skref að fara í sænsku úrvalsdeildina.

Magnús Guðmundsson formaður knattspyrnudeildar ÍA segir í tilkynningu frá félaginu að Halmstad hafi haft samband eftir leikinn við KR á þriðjudag og að eftir viðræður milli félaganna í gær hafi ÍA samþykkt tilboð sænska félagsins.

„Vissulega er mikill missir af Tryggva en við erum með sóknarmenn innan okkar raða sem munu fylla skarð hans. Stjórn Knattspyrnufélags ÍA er ánægð fyrir hönd Tryggva sem á sannarlega framtíðina fyrir sér. Það ber vott um að stefna félagsins er að skila árangri að á rúmu einu ári hafa 5 leikmenn spilað með U21 landsliðinu, 2 með A landsliðinu og 2 leikmenn hafa verið seldir í atvinnumennsku," segir Magnús.

Halmstad er sem stendur í fallsæti í sænsku úrvalsdeildinni, fjórum stigum frá öruggu sæti. Tryggvi verður annar leikmaðurinn í herbúðum Halmstad en nýlega kom Blikinn Höskuldur Gunnlaugsson til félagsins. Höskuldur skoraði í fyrsta leik sínum fyrir Halmstad í 6-1 sigri gegn Jönköpings síðasta laugardag.
Athugasemdir
banner
banner
banner