De Bruyne og Grealish til Napoli? - Rodrygo og Frimpong til Liverpool - Al Hilal vill tvo frá Liverpool - Tveir orðaðir frá Newcastle
   fim 10. október 2013 21:00
Magnús Már Einarsson
Birkir Bjarnason: Kom aldrei til greina að spila fyrir Noreg
Stuðningsmennirnir á Ítalíu brenndu bíla
,,Pabbi var alltaf í Þór en við bjuggum rétt hjá KA-vellinum og það var styttra að fara þangað.  Ég er KA-maður.
,,Pabbi var alltaf í Þór en við bjuggum rétt hjá KA-vellinum og það var styttra að fara þangað. Ég er KA-maður."
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta er annar æfingakúltúr í Noregi og maður fékk sjokk fyrst.  Eftir að hafa æft fimm sinnum í viku á Íslandi fór maður allt í einu að æfa 1-2 í viku í Noregi og þá þurfti maður að æfa mikið einn.
,,Þetta er annar æfingakúltúr í Noregi og maður fékk sjokk fyrst. Eftir að hafa æft fimm sinnum í viku á Íslandi fór maður allt í einu að æfa 1-2 í viku í Noregi og þá þurfti maður að æfa mikið einn.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
,,Ég fékk fyrirspurn um það hvort ég vildi ekki skipta um ríkisborgararétt og vera löglegur með þeim en það kom aldrei til greina.  Það hefði ekki verið rétt fyrir mér.
,,Ég fékk fyrirspurn um það hvort ég vildi ekki skipta um ríkisborgararétt og vera löglegur með þeim en það kom aldrei til greina. Það hefði ekki verið rétt fyrir mér.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er hlegið svolítið af íslenskunni minni á æfingum hjá landsliðinu en það truflar mig ekki neitt.
,,Það er hlegið svolítið af íslenskunni minni á æfingum hjá landsliðinu en það truflar mig ekki neitt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Bjarnason hefur hrifið marga stuðningsmenn íslenska landsliðsins í undankeppni HM. Birkir hefur verið í lykilhlutverki hjá landsliðinu síðan Lars Lagerback tók við en hann hefur skorað þrjú mörk í undankeppninni til þessa.

Fótbolti.net settist niður með Birki í dag og ræddi við hann um árin í Noregi þar sem hann ólst upp að hluta, norskan ríkisborgararétt, lífið á Ítalíu, brjálaða stuðningsmenn og komandi leiki í undankeppni HM.

Birkir er fæddur árið 1988 en hann bjó á Akureyri fyrstu æviárin. Rétt fyrir aldamót flutti hann síðan með fjölskyldu sinni til Noregs.

,,Ég flutti til Noregs með fjölskyldunni árið 1999, þegar ég var ellefu ára. Mamma fékk vinnu og fjölskyldan vildi prófa eitthvað nýtt. Þau búa ennþá í Noregi og hafa það mjög gott," sagði Birkir við Fótbolta.net en systkini hans hafa einnig verið í fótbolta í Noregi.

,,Bróðir minn, Kristófer Atli, er 18 ára og hann spilar með unglingaliði Sandnes Ulf. Systir mín, Björg, var í fótbolta en hún hætti í fótbolta fyrir þremur árum þegar hún eignaðist krakka."

Æfði með KA
Sjálfur byrjaði Birkir að æfa fótbolta á Íslandi áður en hann flutti til Noregs. ,,Ég bjó á Akureyri og spilaði með KA. Pabbi (Bjarni Sveinbjörnsson) var alltaf í Þór en við bjuggum rétt hjá KA-vellinum og það var styttra að fara þangað. Ég er KA-maður."

Birkir lék lengst af í Noregi með liði Viking frá Stafangri en hann hóf þó ferilinn þar með öðrum félögum.

,,Ég spilaði fyrst með unglingaliði hjá Austrått áður en ég fór í lið í 3. deild sem heitir Figgjo. Ég byrjaði að æfa með meistaraflokki þar þegar ég var 13 eða 14 ára og byrjaði að spila leiki með meistaraflokki 15 ára."

Birkir æfði einnig af og til með unglingaliði Viking áður en hann gekk til liðs við úrvalsdeildarliðið þegar hann var fimmtán ára. Eftir hálft ár með unglingaliði Viking byrjaði Birkir síðan að æfa með aðalliði félagsins.

,,Ég þurfti að taka strætó, lest og aftur strætó til að komast á æfingu hjá Viking. Maður var klukkutíma á leiðinni með bið. Maður er 20-25 mínútur að keyra þetta og foreldrar mínir settu líka mikinn tíma í að keyra mig á æfingar þar."

Betra að vera í yngri flokkum á Íslandi en í Noregi
Birkir hefur ágætis samanburð á yngri flokka starfinu á Íslandi og Noregi. Hann telur að það sé betra að æfa í yngri flokkum á Íslandi.

,,Ég held að það sé almennt betra. Maður æfir meira og er með þjálfara sem eru menntaðir og fá borgað fyrir það. Það er ekki í Noregi, þar eru pabbar að þjálfa."

,,Þetta er annar æfingakúltúr í Noregi og maður fékk sjokk fyrst. Eftir að hafa æft fimm sinnum í viku á Íslandi fór maður allt í einu að æfa 1-2 í viku í Noregi og þá þurfti maður að æfa mikið einn."


Kom aldrei til greina að spila fyrir Noreg
Birkir lék með öllum yngri landsliðum Íslands og hæfileikar hans fóru ekki framhjá Norðmönnum sem reyndu að sannfæra hann um að spila fyrir norska landsliðið í framtíðinni. Birkir segir það aldrei hafa komið til greina.

,,Ég fékk fyrirspurn um það hvort ég vildi ekki skipta um ríkisborgararétt og vera löglegur með þeim en það kom aldrei til greina. Það hefði ekki verið rétt fyrir mér. Þegar ég tala um heima er ég að tala um Ísland og ég sé alls ekki eftir þessari ákvörðun."

Þrátt fyrir að hafa búið erlendis frá ellefu ára aldri þá hefur Birkir haldið íslenskunni við. ,,Hún er sæmileg, við tölum alltaf íslensku heima. Það er hlegið svolítið af íslenskunni minni á æfingum hjá landsliðinu en það truflar mig ekki neitt."

Birkir lék með Viking þar til í janúar 2012 þegar belgíska félagið Standard Liege keypti hann í sínar raðir.

,,Ég náði ekki að stimpla mig inn í liðið fyrsta hálfa árið en spilaði slatta. Ég náði síðan að stimpla mig betur inn í liðið áður en ég fór til Ítalíu. Þjálfarinn vildi halda mér en forsetinn vildi selja mig til að fá pening."

Fótboltinn á Ítalíu hentar betur
Því fór svo að Birkir gekk í raðir Pescara á láni sumarið 2012. ,,Þetta var Serie A sem er stórt skref og ég tók sénsinn. Fótboltinn þar hentar mér mjög vel og betur en í Belgíu. Mér hefur liðið vel í Ítalíu frá fyrstu stund."

Utan vallar segist Birkir reyna að finna sér eitthvað að gera á milli æfinga en á síðasta tímabili urðu hann og slóvakíski landsliðsmaðurinn Vladimir Weiss bestu vinir.

,,Ég var með honum nánast á hverjum degi í Pescara og hann er mjög fínn strákur," sagði Birkir en hann heldur ennþá sambandi við Weiss sem leikur í dag með Olympiakos í Grikklandi. Birkir segir að vinskapurinn við Weiss hafi orðið til þess að ítalskan sat á hakanum.

,,Ítalskan er allt í lagi í dag en ég var svolítið latur í fyrra. Ég var alltaf með Weiss svo við töluðum ensku stanslaust en þetta er að koma núna og ég bjarga mér. Ég skil samt meira en ég tala."

Ástríða Ítala fyrir fótbolta er gífurleg og Birkir lendir reglulega í því að stuðningsmenn stoppi hann út á götu til að spjalla um fótbolta eða til að fá eiginhandaráritun.

,,Þetta er allt öðruvísi en annar staðar. Fótboltinn er númer 1, 2 og 3 þarna. Það er mikið af því á Ítalíu að leikmenn eru stoppaðir út á götu."

Stuðningsmennirnir brenndu bíla leikmanna
Stuðningsmennirnir elska leikmenn þegar vel gengur en þegar illa gengur fá leikmenn einnig að heyra það. Sumir stuðningsmenn ganga ennþá lengra þegar gengið er lélegt líkt og þegar Pescara féll úr Serie A síðastliðið vor.

,,Við spiluðum úti á móti Catania þegar þrír lekir voru eftir. Við fengum að vita það þegar við vorum á heimleið í rútunni að stuðningsmennirnir voru búnir að brenna bíla hjá tveimur leikmönnum. Það var ekki minn bíll, ég var sáttur með það," sagði Birkir brosandi.

Í sumar var framtíð Birkis í óvissu en á endanum gekk hann til liðs við hið fornfræga félag Sampdoria.

,,Ég beið svolítið lengi af því að mér fannst rétti klúbburinn ekki vera kominn. Hann kom síðan í lokin með Sampdoria. Þetta er stór klúbbur með frábæra sögu og gott lið," sagði Birkir sem hefur litlar áhyggjur þó Samdporia sé án sigurs eftir sjö leiki.

,,Við erum ekki búnir að byrja nógu vel en ég hef engar áhyggjur af því. Við erum með mjög gott lið og eigum eftir að snúa þessu við."

Mikilvægustu landsleikirnir
Birkir er líkt og aðrir landsliðsmenn gríðarlega spenntur fyrir komandi landsleikjum gegn Kýpur á morgun og gegn Norðmönnum á þriðjudag. Umspilssæti á HM er í húfi og Birkir bíður spenntur eftir leikjunum.

,,Ég er mjög spenntur. Þetta eru mikilvægustu leikirnir sem ég hef spilað fyrir landsliðið og þetta verður mjög gaman. Við erum í mjög góðri stöðu núna og við þurfum að gera okkar vinnu, þá erum við í mjög góðum séns," sagði Birkir sem segist njóta þess að spila fyrir framan fullan Laugardalsvöll.

,,Það er gríðarlega mikilvægt að hafa fullan völl. Það gerir mikið fyrir okkur leikmenn að fá þennan stuðning. Við höfum spilað vel og fólk vill koma og styðja okkur sem er mjög gott," sagði Birkir að lokum.
Athugasemdir
banner
banner