lau 10. október 2015 16:04
Ívan Guðjón Baldursson
EM U21: Frakkar lögðu Skota
Mynd úr sigri Íslendinga gegn Frökkum í september.
Mynd úr sigri Íslendinga gegn Frökkum í september.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skotland 1 - 2 Frakkland
0-1 Stephen Kingsley ('11, sjálfsmark)
0-2 Corentin Tolisso ('53)
1-2 Billy King ('91)
Rautt spjald: Ryan Gauld, Skotland ('74)

Skotar tóku á móti Frökkum í riðli íslenska landsliðsins í undankeppni fyrir EM U21 árs landsliða.

Franska liðið er það sigurstranglegasta í riðlinum en Ísland hafði betur er liðin mættust hér á landi í byrjun september.

Leikurinn gegn Skotum byrjaði ekki sérlega vel fyrir Frakka sem misstu miðjumanninn Tiemoue Bakayoko, sem leikur fyrir Monaco, af velli vegna meiðsla strax á áttundu mínútu. Thomas Lemar, samherji hans hjá Monaco, kom inn í staðinn og lét strax að sér kveða.

Á elleftu mínútu komust Frakkar yfir þegar Stephen Kingsley gerði sjálfsmark eftir að hafa fengið bolta frá varamanninum Lemar í sig. Frakkar voru einu marki yfir í hálfleik en misstu skærustu stjörnu sína, Kingsley Coman leikmann Bayern München, af velli vegna meiðsla um miðjan fyrri hálfleik.

Corentin Tolisso tvöfaldaði forystu Frakka snemma í síðari hálfleik og var Ryan Gauld, 19 ára leikmaður Sporting sem hefur verið kallaður hinn skoski Messi, rekinn af velli á 74. mínútu.

Billy King klóraði í bakkann fyrir heimamenn í uppbótartíma en nær komust Skotar ekki og eru bæði lið með þrjú stig eftir tvær umferðir.

Skotar eiga annan heimaleik í undankeppninni á þriðjudaginn, þegar þeir mæta Íslendingum sem lögðu Úkraínu af velli á fimmtudaginn.

Stöðuna í riðlinum er hægt að sjá hér fyrir neðan, en efsta sæti hvers riðils kemst beint á lokakeppnina auk fjögurra liða af níu sem enda í öðru sæti sinna riðla.

Riðill 3:
1. Ísland 4 leikir 10 stig
2. Frakkland 2 leikir 3 stig
3. Skotland 2 leikir 3 stig
4. Makedónía 2 leikir 3 stig
5. Úkraína 2 leikir 0 stig
Athugasemdir
banner
banner