Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   lau 10. október 2015 19:05
Magnús Már Einarsson
Heimir: Töpuðum þessum þremur stigum sjálfir
Icelandair
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, segir að síðari hálfleikurinn gegn Lettum í kvöld hafi verið slakasti hálfleikurinn hjá liðinu í undankeppni EM. Ísland leiddi 2-0 í hálfleik en missti forskotið niður í jafntefli í síðari hálfleiknum. Heimir segir að hálfleikurinn sé slakasti í keppninni.

„Ég gæti trúað því. Ég ætla samt ekkert að taka af Lettum. (Marian) Pahars er að gera góða hluti með þetta lið og þeir eru í framför. Þeir fóru virkilega illa með okkur í seinni hálfleik," sagði Heimir á fréttamannafundi eftir leik.

„Við vorum að spila leikstíl sem við erum ekki vanir að gera. Þetta gekk meira út á einstaklingsframtak. Knattspyrna er hópíþrótt og lið eins og Ísland vinnur ekki ef við ætlum að spila eins og einstaklingar. Við töpuðum þessum þremur stigum sjálfir."

Sóknarleikurinn upp á það besta í fyrri hálfleik
Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson skoruðu fyrir Ísland í fyrri hálfleik þegar liðið lék á alls oddi.

„Við vorum mjög ánægðir með fyrri hálfleikinn. Sóknarleikurinn var með því besta sem við höfum sýnt. Við gerðum akkurat það sem við lögðum upp með, við vorum að stinga okkur í svæði bakvið þá og fengum fullt af góðum færum. Við fengum fleiri færi og hefðum átt að skora þriðja markið og drepa leikinn. Það var það eina neikvæða við fyrri hálfleikinn."

„Í hálfleik töluðum við um að ná betra jafnvægi. Þeir eru mjög góðir í skyndisóknum og við vildum ekki gefa þeim möguleika á þeim. Við fengum mark á okkur eftir skyndisókn eftir fimm mínútur og þá hrynur skipulagið í liðinu. Við vitum ekki hver ástæðan er. Við spiluðum mjög ólíkt því sem við höfum spilað hingað til. Bæði hvað varðar leikskipulag og jafnvægi á liðinu og bardagann í návígjum. Það voru margir hlutir sem við gerðum í þessum seinni hálfleik sem við erum ekki vanir að gera."


Vantaði jafnvægi í allt liðið
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði, var í leikbanni í leiknum í dag og hans var sárt saknað. „Það á alltaf að koma maður í manns stað. Hann hefur spilað allar mínúturnar og það er efitt að fara í hans stöðu. Mér fannst Emil (Hallfreðsson) gera það vel í fyrri hálfleik. Þegar kemur los á allt liðið er þetta sú staða sem er áberandi inni á vellinum."

„Það vantaði jafnvægi í allt liðið. Þegar við töpuðum bolta þá eru menn ekki í sínum stöðum. Við höfum verið þekktir fyrir að vera skipulagðir og gefa ekki færi á okkur en Lettar voru ekki langt frá því að vinna þennan leik."


Hefðu allir getað farið út af
Þrátt fyrir slakan síðari hálfleik ákváðu Heimir og Lars að nota einungis tvær skiptingar í leiknum. Önnur þeirra kom í fyrri hálfleik vegna meiðsla Kára Árnasonar.

„Það kom einhverneginn alltaf upp ný móment. Þegar við vorum í 2-0 og leikinn í höndunum vorum við með skiptingu í huga. Svo er 2-1 og þá gerum við eina skiptingu. Við erum að hugsa um að fara að gera aðra skiptingu þá er staðan 2-2."

„Það kemur oft upp nýtt móment. Við gerum ekki skiptingu til að gera skiptingu. Það hefðu allir getað farið út af í þessum leik en það hefði líka getað gert illt verra að skipta. Það er ekki skylda að skipta þremur mönnum inn á."


Ísland gerði markalaust jafntefli gegn Kasakstan í síðasta mánuði og gegn Lettum í dag en Heimi hefur ekki áhyggjur að því að liðið eigi í erfiðleikum með að eiga við lægra skrifaðar þjóðir.

„Við vissum alveg hvað við þurftum að gera gegn Kasakstan, það var að halda hreinu. Við gerðum það sem þurfti í þeim leik. Auðvitað hefðum við getað spilað betri sóknarleik en það var ekki markmiðið. Það var markmiðið að ná í þetta eina stig. Það var ákveðinn sigur á sálfræðinni að gera það. Auðvitað hefðu einhverjir viljð að við hefðum spilað eins og Barcelona á móti Kasakstan."

„Í dag nálguðumst þennan leik hárrétt. Við spiluðum fyrri hálfleikinn mjög vel. Við vorum skipulagðir og áttum flottar sóknaraðgerðir. Síðan gerðist eitthvað í síðari hálfleik. Lettarnir hafa náð jafntefli gegn Tékkum og tveimur jafnteflum gegn Tyrkjum. Þeir eru ekki lið sem þjóðir ganga yfir."


Tími til að sýna karlmennsku, hugrekki og þor
Lokaleikur riðilsins er á þriðjudag en Ísland heimsækir þá Tyrkland. „Það verður drulluerfiður leikur. Þeir eru að berjast um að komast til Frakklands. Það verður fullur völlur sem öskrar með Tyrkjum svo það er tími til að sýna karlmennsku, hugrekki og þor þarna. Tyrkir eru sterkir á heimavelli og gera allt til að komast í þessa lokakeppni. Þetta verður drulluerfiður leikur að öllu leyti."

Blaðamaður frá Þýskalandi skaut inn spurningu og spurði hvort Ísland ætli áfram á EM í Frakklandi næsta sumar. „Við ætlum að sjálfsögðu að fara áfram. Við vitum að það eru góð lið þarna og við erum á jörðinni en við eru ekki að fara þarna bara til að skemmta okkur," sagði Heimir ákveðinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner