þri 10. október 2017 20:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Eyjólfur: Maður er aldrei að reyna að hefna sín
,,Til hamingju með HM"
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
„Já, við erum það," sagði Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 árs landsliðs Íslands, aðspurður að því hvort hann væri ánægður með sitig eftir markalaust jafntefli gegn Albaníu í dag.

„Þeir byrjuðu með miklum látum og voru ívið sterkari aðilinn fyrstu 15-20 mínúturnar en eftir það tókum við leikinn í okkar hendur og vorum að halda bolta virkilega vel."

Eyjólfur var virkilega ánægður með seinni hálfleikinn.

„Seinni hálfleikurinn var stórkostlegur," sagði hann. „Við fengum tvö virkilega góð færi, eða þrjú, við skoruðum eitt sem var dæmt af. Svo fengu þeir nú eitt færi líka. Það er alveg hægt að vera sáttur við þetta. Þetta var virkilega vel spilaður leikur hjá okkur, sérstaklega seinni hálfleikurinn, þar sem við héldum boltanum vel, við höfum sjaldan verið svona öflugir í að halda boltanum."

„Ég er mjög ánægður með leikinn. Ég hefði kannski viljað sjá liðið skapa aðeins meira, en ég er heilt yfir mjög ánægður."

Ísland tapaði 3-2 gegn Albaníu á heimavelli á dögunum, en hefnd var ekki efst í huga Eyjólfs.

„Maður er aldrei að reyna að hefna sín fyrir eitt eða neitt. Við viljum alltaf vinna alla leiki."

„Þessi leikur var allt öðruvísi en hinn. Leikurinn heima var fram og til baka en þetta var mikið taktískara í dag. Bæði lið eru að taka miklum framförum og við höfum sérstaklega bætt okkar leik."

Ísland er með fjögur stig eftir fyrstu þrjá leikina í undankeppni EM.

„Við stefnum á það að reyna að komast áfram, við stefnum alltaf á það. Það er mikilvægt að vaxa sem lið og við erum svo sannarlega að gera það," sagði Eyjólfur en lokaorð hans við undirritaðan voru „Til hamingju með HM."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner