Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 10. nóvember 2017 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Bendtner er of góður fyrir norsku úrvalsdeildina"
Hefur slegið í gegn hjá Rosenborg
Mynd: Getty Images
Bendtner lék áður með Arsenal.
Bendtner lék áður með Arsenal.
Mynd: Getty Images
„Hann er of góður fyrir norsku úrvalsdeildina," segir Kare Ingebrigtsen, þjálfari Rosenborg, um Nicklas Bendtner.

Rosenborg varð norskur meistari í enn eitt skiptið á dögunum og átti Bendtner stóran þátt í titlinum. Hann er í augnablikinu markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar með 18 mörk.

Bendtner kom til Rosenborg fyrir tímabilið eftir að hafa átt erfitt uppdráttar hjá Wolfsburg, Nottingham Forest og fleiri liðum.

Hjá Rosenborg hefur hann sannað sig, en hann hugsaði um að hætta í fótbolta áður en hann hélt til Noregs og kynntist boltanum þar.

„Áður en ég kom til Rosenborg vildi ég ekki spila fótbolta lengur," sagði Bendtner við NRK í Noregi á dögunum.

Nú óttast menn hjá Rosenborg að Bendtner fari í annað og stærra lið, en Ingebrigtsen, þjálfari liðsins, vonast til að Danmörk komist á HM í Rússlandi því þá sé líklegra að Bendtner verði áfram.

„Við verðum að vona að Danmörk komist á HM, því þá eru meiri líkur á að hann verði áfram Þrándheimi. Hér er hann í öruggu umhverfi," sagði Ingebrigtsen.

Danmörk mætir Írlandi í umspilsleikjum og möguleikinn er því ágætur fyrir Dani að komast til Rússlands.

Á undanförnum árum hafa „sérfræðingar" talað um Bendtner sem hálfgerðan grín fótboltamann. Hann virðist nú hafa tekið sig saman í andlitinu í Noregi, en hjá Rosenborg leikur Matthías Vilhjálmsson. Þetta hafði Matthías að segja um Bendtner í útvarpsþættinum Fótbolta.net í síðasta mánuði:

„Hann er algjör fagmaður og það er gaman að honum. Hann er mun gáfaðri en ég hélt. Hann hefur hæfileika sem ekki margir í Skandinavíu eru með. Í byrjun tímabils snérist þetta um að koma honum í leikform og það var aðeins á minn kostnað. Ég skoraði í hverjum leik sem ég spilaði frammi en samt fékk hann að spila áfram. Það virðist vera að skila sér að undanförnu. Hann er frábær fótboltamaður."

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvað Bendtner gerir í náinni framtíð, hvort hann verði áfram í Rosenborg eða fari í annað og stærra lið. Það á eftir að koma í ljós, en það sem er ljóst er að Rosenborg mun gera allt til að halda honum.
Athugasemdir
banner
banner
banner