Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 10. desember 2014 11:00
Magnús Már Einarsson
Mun Gylfi Orra veita Stóra Sam sakaruppgjöf?
Gylfi Þór Orrason (í miðjunni) er harður West Ham maður.
Gylfi Þór Orrason (í miðjunni) er harður West Ham maður.
Mynd: Úr einkasafni
Stóri Sam hefur náð mögnuðum árangri á þessu tímabili.
Stóri Sam hefur náð mögnuðum árangri á þessu tímabili.
Mynd: Getty Images
Í janúar virtist Sam Allardyce vera kominn á endastöð með West Ham en liðið var þá í miklum vandræðum í ensku úrvalsdeildinni. Stóri Sam hefur heldur betur rifið liðið upp síðan þá en West Ham bjargaði sér örugglega frá falli á síðasta tímabili og í dag situr liðið í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Stuðningsmenn West Ham hafa þó oft kallað eftir því að Stóri Sam fái að taka pokann sinn og þá ekki síst þar sem þeim þykir leikstíll hans ekki heillandi.

Gylfi Þór Orrason er harður stuðningsmaður West Ham og hann er ennþá ósáttur með Stóra Sam.

,,Já, en ef þetta heldur áfram á sömu braut út tímabilið mun ég glaður "veita honum sakaruppgjöf" og byrja að hrópa nafna hans í aðdáun á torgum úti," sagði Gylfi léttur í bragði við Fótbolta.net

,,Árangurinn hefur komið mér skemmtilega á óvart. Nýju leikmennirnir Sakho, (markaskorari af guðs náð), Valencia (fljótur eins og byssukúla), Kouyate (nýr Vieira "in the making"), Jenkinson (hvað var Arsenal að hugsa?), Amalfitano (teknískur spilari með góðar sendingar), Cresswell (sókndjarfur vinstri bakvkörður að mínu skapi), Zarate (sem ég myndi gjarnan vilja fá að sjá spila meira, en hann er greinilega ekki nógu duglegur að vinna til baka að mati Stóra Sam) og sérstaklega Song hafa smellpassað inn í hópinn og gjörbreytt liðinu."

,,Fyrir voru síðan máttarstólpar eins og Noble, Tomkins, Reid og Adrian auk þess sem einhver teikn virðast nú á lofti um að Carroll sé loks að losna við allt meiðslavesenið sem hefur plagað hann allt frá því að hann gekk til liðs við félagið."

,,Þá hefur það verið algjört "master stroke" hjá Allardyce að setja Downing inn á miðjuna þar sem hann hefur brillerað. Að síðustu má ekki gleyma gömlu mönnunum Nolan og Cole, sem alltaf eru reiðubúnir til að deyja fyrir málstaðinn auk þess sem ég veit að miklu meira býr í Matt Jarvis en hann hefur sýnt í ár."


Bjartsýnustu aðdáendur West Ham eru farnir að setja stefnuna á Meistaradeildarsæti en telur Gylfi það raunhæft?

,,Nei, ég hygg að sæti í Evrópudeildinni væri raunhæfara markmið. Sömu "stóru" liðin eiga í krafti fjölmennari/sterkari leikmannahópa eftir að feta sig hægt og bítandi upp töfluna og þegar upp verður staðið held ég að ekki verði nein breyting á því hverjir verða fulltrúar Englands í næstu Meistaradeild Evrópu," sagði Gylfi.
Athugasemdir
banner