mið 11. janúar 2017 19:00
Elvar Geir Magnússon
Maracana molnar niður
Maracana leikvangurinn er orðinn að draugavelli.
Maracana leikvangurinn er orðinn að draugavelli.
Mynd: Getty Images
Maracana í Rio de Janeiro, einn goðsagnakenndasti leikvangur heimsfótboltans, liggur undir skemmdum. Völlurinn var fyrst opnaður fyrir HM í Brasilíu 1950.

Hann skartaði sínu fegursta á Ólympíuleikunum í Rio síðasta sumar en síðan hefur hann ekkert verið notaður og er skyndilega orðinn að draugavelli.

Ekkert viðhald hefur átt sér stað og grasið er orðið ónýtt. Drulla hefur safnast saman og glæpamenn hafa látið greipar sópa og rænt öllu mögulegu, allt frá sjónvörpum og slökkvitækjum í sögulega minningargripi.

Fótboltasamtök borgarinnar hafa kallað eftir neyðarfundi með borgaryfirvöldum til að bregðast við.

Margir stórir viðburðir hafa farið fram á vellinum síðustu ár. 2013 var þar úrslitaleikur Álfukeppninnar þegar Neymar fór á kostum í sigri Brasilíu á Spáni og 2014 var úrslitaleikur HM þar í annað sinn í sögunni. Þar vann Þýskaland sigur á Argentínu.

Á liðnu ári voru svo Ólympíuleikarnir að stórum hluta á vellinum, þar á meðal opnunar- og lokahátíðin.

Deilur hafa skapast um það hverjir eigi að borga fyrir viðhald á vellinum. Nefndin fyrir Ólympíuleikana átti upphaflega að borga en hún er skuldug. Ekkert af fótboltaliðunum í Rio áætlar að vera með Maracana sem sinn heimavöll.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner