Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 11. janúar 2017 18:00
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Akraborgin 
Segir leikmenn á Íslandi ekki leggja nægilega mikið á sig
„Félögin eiga að krefjast þess að fá meira fyrir fjárfestinguna.
„Félögin eiga að krefjast þess að fá meira fyrir fjárfestinguna." - Myndin tengist ekki greininni með beinum hætti.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
„Félögin þurfa að fá meira út úr leikmönnunum sínum. Það gerir þá betri, deildina betri og hjálpar leikmönnunum að taka næsta skref," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, fjölmiðlamaður og yfirþjálfari Gróttu, í viðtali í Akraborginni á X-inu FM 97,7 í dag.

„Ég fékk sjokk þegar ég horfði á KR spila gegn Rosenborg 2015. Þá kom besta lið Noregs, félag sem hefur samt oft áður verið með betra lið, en það var á allt öðrum stað hvað varðar líkamlega þáttinn. Þeir voru fljótari, sterkari og með betra jafnvægi. Munurinn var geigvænlegur, hann var óþægilega mikill."

Hann telur að félög á Íslandi séu mörg hver að borga leikmönnum of mikið miðað við hvað þeir skila þeim.

„Ég held að menn leggi ekki nægilega mikið á sig í meistaraflokki. Ég held að menn taki lyftingar ekki nægilega alvarlega, menn mæti mikið í ræktina bara til að mæta í ræktina," sagði Óskar og tók Gary Martin sem dæmi um leikmann með réttan hugsunarhátt í þessum efnum.

„Gary Martin er einn af fáum leikmönnum á Íslandi sem fær borgað eins og atvinnumaður og hegðar sér eins og atvinnumaður. Hann æfir tvisvar á dag. Hann er sérstakur maður en það er ekki annað hægt að segja en að hann er að vinna sem fótboltamaður."

Tveir tímar á dag ekki full vinna
„Ég hef áður gagnrýnt laun íslenskra fótboltamanna, kannski aðallega á þeim forsendum að þeir fá margir hverjir greitt frá félögunum eins og um fulla vinnu sé að ræða en það eru engar kvaðir á þá. Félögin þurfa að vakna. Ef þau borga manni 700 þúsund krónur á mánuði eiga þau heimtingu á að hann mæti 9 á morgnana. Að hann fari í ræktina og út á völl. Ef það er ekkert að gera hjá honum að hann taki þá þátt í þjálfun yngstu flokkana. Hann er bara í vinnunni, þetta er ekki bara tveir tímar á dag. Menn verða betri ef þeir sinna þessu almennilega," sagði Óskar.

„Mér finnst skrítið að menn fái kannski 700 þúsund kall á mánuði fyrir að spila fótbolta og mæti svo kannski ekki á hádegisæfingu því þeir eru í hinni vinnunni. Ef mönnum finnst einhver vera þess virði að borga honum 1,5 milljónir á mánuði er það þeirra val. En er ekki hægt að fara fram á meira vinnuframlag? Tveir tímar á dag er ekki full vinna."

„Ég tel að mörg félög á Íslandi séu ekki að fá nægilega mikið fyrir peninginn. Það kaupir ekkert félag leikmann hér til að auka treyjusölu. Þú þarft að leita lengi til að finna einhvern leikmann sem fólk borgar sig inn á leiki til að horfa á. Með fullri virðingu, það er fullt af fínum leikmönnum. Virði þessara leikmanna felst eingöngu í því hversu góðir þeir eru inni á vellinum, hvað þeir búa til fyrir liðið og hvaða þátt þeir eiga í að búa til tekjur í formi Evrópukeppni, bikarkeppni og Íslandsmeistaratitils. Eina leiðin til að standa sig á vellinum er að æfa mikið. Félögin eiga að krefjast þess að fá meira fyrir fjárfestinguna," sagði Óskar í Akraborginni en viðtalið má heyra í spilaranum hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner