Andri Rúnar Bjarnason, markakóngur Pepsi-deildarinnar í fyrra, skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í sínum fyrsta landsleik þegar Ísland vann Indónesíu 6-0 í vináttulandsleik í dag.
Lestu um leikinn: Indónesía 0 - 6 Ísland
Andri klúðraði vítaspyrnu áður en hann kom Íslandi yfir með laglegri bakfallsspyrnu.
Hann segist hafa fengið léttan fiðring fyrir leikinn og verið mjög spenntur.
„Það var draumi líkast að ná að skora í fyrsta landsleiknum, það var líka mikill léttir eftir að hafa klúðrað vítaspyrnunni. Að ná að koma til baka og skora," sagði Andri eftir leikinn.
Hann spilaði fyrri hálfleik en í þeim síðari voru aðstæðurnar orðnar gríðarlega erfiðar. Það hellirigndi og pollar um allan völl. Andri hefði samt viljað spila seinni hálfleikinn líka.
„Maður er náttúrulega vanur mýrarboltanum á Ísafirði og það hefði verið fínt að taka þátt! En já þetta voru erfiðar aðstæður, pollar um allt, en við gerðum virkilega vel í seinni hálfleik. Við skoruðum fimm mörk í þessum aðstæðum sem er virkilega vel gert."
Sjáðu viðtalið í heild í sjónvarpinu hér að ofan en Ísland leikur annan leik í Indónesíu á sunnudaginn.
Athugasemdir