sun 11. mars 2018 20:31
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Silva gerði sigurmarkið með síðustu snertingunni
Mynd: Getty Images
Genoa 0 - 1 AC Milan
0-1 Andre Silva ('94)

AC Milan heimsótti Genoa í ítalska boltanum eftir svekkjandi tap gegn Arsenal í Evrópudeildinni á fimmtudaginn.

Milan var mun betra liðið í leiknum en það var mikið um mistök í varnarleiknum og komust heimamenn nokkrum sinnum nálægt því að skora, en hittu aldrei á rammann.

Það stefndi allt í markalaust jafntefli í Genúa en portúgalski sóknarmaðurinn Andre Silva var á öðru máli.

Hann kom inn í síðari hálfleik og skoraði sitt fyrsta mark í ítalska boltanum með síðustu snertingu leiksins, á síðustu sekúndum uppbótartímans.

Þetta er fjórði sigur Milan í röð í deildini og er liðið komið í evrópudeildarsæti, þremur stigum fyrir ofan Sampdoria sem steinlá óvænt fyrir Crotone fyrr í dag.

Milan er aðeins fjórum stigum frá nágrönnum sínum og erkifjendum í Inter, sem eru í síðasta meistaradeildarsætinu. Inter á leik til góða og er að spila hann, gegn toppbaráttuliði Napoli.
Athugasemdir
banner