banner
   sun 11. mars 2018 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mertesacker opnar sig - Vill ekki spila meira
Mynd: Getty Images
„Augnablikin áður en leikurinn byrjar, þá fæ ég stundum hnút í magann og þarf að æla. Svo kúgast ég það mikið að ég fæ tár í augun," segir Per Mertesacker, varnarmaður Arsenal, í athyglisverðu viðtali við þýska blaðið Spiegel.

Hinn 33 ára gamli Mertesacker segist vera feginn því að vera loksins að leggja skóna á hilluna.

Hann vill helst sleppa því að spila meiri fótbolta fyrir Arsenal.

„Allir segja að ég eigi að njóta síðasta ársins, að spila eins mikið og ég get, en ég vil frekar sitja á bekknum eða sem betra er, í stúkunni. Og svo, í fyrsta sinn í mínu lífi verð ég frjáls," segir Mertesacker sem hefur mikið verið að glíma við meiðsli síðustu ár.

„Líkami minn er búinn," segir hann.

Mertesacker segir að pressan á fótboltamenn sé gríðarleg.

„Suma daga áttarðu þig á því að allt er byrði, bæði líkamlega og andlega en þú verður að standa þig."

„Pressan er gríðarleg. Ég hugsa alltaf það versta, að ég muni gera mistök og beri ábyrgð á marki. Þegar stuðningsmennirnir fagna þér er það frábært, eiginlega ótrúlegt. En þegar þeir baula á þig, þá skammast ég mín alltaf."

Hinn 33 ára gamli Mertesacker mun leggja skóna á hilluna eftir tímabilið og koma inn í þjálfarateymi Arsenal.
Athugasemdir
banner
banner
banner