„Ef þú hefðir spurt mig fyrir leik þá hefði ég sagt tvö stig töpuð en eftir að hafa spilað leikinn held ég að við getum verið sáttir við þetta eina stig," sagði Arnar Grétarsson þjálfari Breiðabliks eftir 2-2 jafntefli við KR í Kópavogi í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 2 KR
„Mér fannst við byrja leikinn mjög vel og komumst réttilega yfir 1-0 en það voru bara búnar 10-11 mínútur af fyrri hálfleik og þá fannst mér menn hætta að spila, voru ekki að bjóða sig og fóru í feluleik, voru nálægt mönnunum sínum og á voru KR-ingar allsráðandi það sem eftir var fyrri hálfleiks. Auðvitað var blóðugt að fá á sig jöfnunarmark á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks."
„Þó KR-ingar hafi verið betri þá voru þeir ekki að skapa sér færi og mér fannst seinni hálfleikur ívið jafnari og KR-ingar komu grimmari til að byrja með og við unnum okkur inn í leikinn. Ég var sáttur með að menn svöruðu því þegar við fáum á okkur 1-2 og við skorum strax mark."
Ellert Hreinsson lenti í samstuði við Rasmus Christiansen í leiknum og er líklega nefbrotinn.
„Ég held að það hljóti að vera, nefið er í góðum keng. Hann er ekkert sáttur við nefið á sér eins og það er núna og ég held að það þurfi að fara í réttingu."
Athugasemdir