mán 11. júní 2018 21:16
Fótbolti.net
Einkunnir Íslands: Glódís Perla skaraði fram úr
Icelandair
Glódís skoraði tvennu og var besti maður vallarins. Það hefði verið saga til næsta bæjar ef hún hefði sett eitt mark í viðbót.
Glódís skoraði tvennu og var besti maður vallarins. Það hefði verið saga til næsta bæjar ef hún hefði sett eitt mark í viðbót.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikurinn breyttist eftir að Elín Metta kom inn á.
Leikurinn breyttist eftir að Elín Metta kom inn á.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland vann góðan 2-0 sigur á Slóveníu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld og er komið í bílstjórasætið í riðli sínum þegar tveir leikir eru eftir.

Hér að neðan má sjá einkunnagjöf Fótbolta.net eftir leikinn.



Guðbjörg Gunnarsdóttir (m) 6
Var ekki mikið að gera hjá henni í kvöld en þegar á reyndi þá stóð hún sig með prýði.

Ingibjörg Sigurðardóttir 7
Var dugleg að fara upp hægri kantinn í dag og var ógnandi á köflum. Er alltaf að bæta sinn leik og þá sérstaklega tæknilegu hliðina.

Sif Atladóttir 8
Toppleikur í vörn Íslands og Twitter lofaði hana á meðan leik stóð. Vinnur allar tæklingar og alltaf traust í öftustu línu

Glódís Perla Viggósdóttir 9 - Maður leiksins
Maður leiksins með tvö mikilvæg mörk fyrir Ísland. Átti öflugan leik í vörninni og sýndi hversu sterk hún er í föstum leikatriðum með tveimur mörkum.

Hallbera Guðný Gísladóttir 7
Nokkuð solid frammistaða hjá Hallberu í dag. Hún á varla slæma daga. Þeir eru afar sjaldgæfir. Átti frábæra sendingu í fyrra marki Íslands.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 7
Barðist eins og ljón. Það vita allir fyrir hvað Gunnhildur stendur fyrir og hún var sterk á miðjunni í dag.

Selma Sól Magnúsdóttir 7
Er að koma eins og stormsveipur inn í þetta landslið. Byrjaði leikinn mjög vel á miðjunni og átti nokkra góða spretti í þessum leik. Hún var með stoðsendingu í seinna marki Íslands.

Rakel Hönnudóttir 5
Sést að hún hefur verið meidd. Náði sér ekki á strik og var tekin snemma útaf enda ekki í 90 mínútna formi. Rakel kemur sterkari í Þýskalands leikinn

Agla María Albertsdóttir 6
Maður hefur oft séð Öglu betri. Loka ákvarðanir ekki góðar og átti að keyra meira á bakvörðinn hjá Slóvenum.

Harpa Þorsteinsdóttir 6
Virtist ekki ná fullum takti við leikinn. Harpa getur betur en varnarmenn Slóveníu áttu í erfiðleikum með hana þegar hún komst í stöðu. Var vinnusöm.

Fanndís Friðriksdóttir 6
Virðist ekki alveg í sínu besta formi en átti nokkra lipra spretti. Hún er á heimleið og mun spila sig fljótt í form hér heima.

Varamenn
Sigríður Lára Garðarsdóttir 7 (65)
Iðnaðarbarátta frá fyrstu mínútu eftir að hún kemur inn á. Stóð sig vel og hjálpaði Íslandi að landa sigrinum.

Elín Metta Jensen 7 (54)
Leikurinn breyttist þegar að Elín kom inn á. Boltinn virtist flæða betur og það kom meiri hreyfing í sóknarleikinn.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir spilaði ekki nóg til að fá einkunn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner