Chelsea í viðræðum um Osimhen - Arsenal hefur enn áhuga á Osimhen - Mikel Merino gæti farið til Arsenal
banner
   fim 11. júlí 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Copa America: Kólumbía í úrslit í fyrsta sinn í 23 ár
Jefferson Lerma skorar sigurmarkið með skalla eftir hornspyrnu Rodriguez
Jefferson Lerma skorar sigurmarkið með skalla eftir hornspyrnu Rodriguez
Mynd: EPA
James Rodriguez fékk gula spjaldið og var því tekinn af velli
James Rodriguez fékk gula spjaldið og var því tekinn af velli
Mynd: EPA
Darwin Nunez fékk þrjú dauðafæri en fór illa með þau
Darwin Nunez fékk þrjú dauðafæri en fór illa með þau
Mynd: EPA
Úrúgvæ 0 - 1 Kólumbía
0-1 Jefferson Lerma ('39 )
Rautt spjald: Daniel Munoz, Colombia ('45)

Kólumbíska landsliðið komst í úrslit Copa America í nótt í fyrsta sinn síðan 2001 er liðið lagði Úrúgvæ, 1-0, á Bank of America leikvanginum í Charlotte. Kólumbía spilaði manni færri allan síðari hálfleikinn, en tókst að halda út.

Ákefðin, spennan og baráttan í leiknum var gríðarleg enda mikið undir hjá báðum liðum.

Darwin Nunez, framherji Liverpool, fékk þrjú dauðafæri fyrir úrúgvæska liðið í fyrri hálfleik, en klúðraði öllum. Marcelo Bielsa, þjálfari Úrúgvæ, hefur fengið Nunez til að 'tikka' síðustu mánuði, en hann var ekki alveg að finna sig í þessum leik.

Minnti svolítið á Nunez hjá Liverpool á síðasta tímabili. Hann hefur yfirleitt verið mjög áreiðanlegur með landsliði sínu en það vantaði eitthvað upp á.

Kólumbíumenn gerðu eina mark leiksins. Jefferson Lerma kom þeim í forystu á 39. mínútu. James Rodriguez með hornspyrnuna á fjær og þar reis Lerma hæst allra og náði að setja hausinn í boltann, sem lak síðan út við nærstöngina og inn.

Sjötta stoðsending Rodriguez á mótinu, hvorki meira né minna. Langbesti maður mótsins til þessa.

Richard Rios gat tvöfaldað forystuna undir lok hálfleiksins en Sergio Rochet varði frábærlega í markinu.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Daniel Munoz, leikmaður Kólumbíu, að líta sitt annað gula spjald fyrir heimskulegt atvik, en hann gaf leikmanni úrúgvæska liðsins olnbogaskot í bringuna og var réttilega rekinn af velli.

Þegar hálftími var eftir af síðari hálfleik var ákveðið að taka James af velli. Hann hafði nokkrum mínútum áður verið að þræta við dómarann og fengið gula spjaldið fyrir. Fyrsta sem hann gerði eftir spjaldið var að fara í villta tæklingu og taldi þjálfarinn því best að taka hann af velli svo hann myndi nú örugglega ekki missa af úrslitaleiknum.

Reynsluboltinn Luis Suarez kom inn af bekknum rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok og var ekki lengi að skapa usla. Hann átti skot sem fór af slánni og tveimur mínútum síðar setti hann boltann í stöng og framhjá eftir stórgóða sókn.

Úrúgvæ sótti án afláts sem gaf Kólumbíu tækifæri á að keyra hratt í skyndisóknum.

Mateus Uribe fékk tvö dauðafæri til að gulltryggja sigur Kólumbíu en hann setti boltann framhjá í fyrra færinu og síðan varði Rochet seinna skotið í slá. Heppnin ekki alveg með honum en sem betur fer fyrir hann kom það ekki að sök.

Það er Kólumbía sem fer í úrslit í fyrsta sinn síðan 2001, sem er einmitt árið sem þeir unnu keppnina í fyrsta og eina skiptið. Kólumbía mætir ríkjandi meisturum Argentínu á Hard Rock-leikvanginum í Miami á sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner