Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mið 11. október 2017 19:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Katrín: Ánægðar með að hitt rússneska liðið datt út
Katrín Ásbjörnsdóttir.
Katrín Ásbjörnsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við erum gríðarlega ánægðar með þetta," sagði Katrín Ásbjörnsdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, eftir 4-0 sigur á rússneska liðinu Rossiyanka í 32-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í dag.

„Við gerðum það sem við ætluðum að gera í þessum leik. Við bættum fyrir það sem við gerðum í síðasta leik heima. Við fengum fullt af færum og nýttum þau."

Fyrri leikurinn í Garðabænum endaði 1-1 þrátt fyrir að Stjarnan hefði verið sterkari aðilinn. Í þessum leik tókst Stjörnustúlkum að gera það sem vantaði upp á í fyrri leiknum, skora mörk.

„Við vissum allan tímann að við værum með lið sem á að vinna Rossiyanka," sagði Katrín.

„Við þurftum að læra aðeins betur inn á þær, við vissum ekkert hvað við vorum að fara út í í fyrri leiknum. Við vissum bara að þær væru með ungar stelpur í liðinu sínu og að þær spiluðu fimm manna vörn. Það var það eina sem við vissum."

„En núna í seinni leiknum vorum við búnar að læra betur inn á þær og við vissum hverjir veikleikar þeirra væru. Við nýttum okkur það og spiluðum mjög vel. Við nýttum færin okkar betur og mér fannst liðsheildin betri hjá okkur í dag en í fyrri leiknum."

Það er stórt afrek hjá Stjörnunni að vera komin í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Katrín var spurð að lokum út í óskamótherja í næstu umferð, en Íslendingaliðin Rosengård og Wolfsburg gætu mætt í Garðabæinn í nóvember. Þá verður kalt!

„Það væri náttúrulega mjög gaman," sagði Katrín um tilhugsunina að mæta Íslendingaliði. „Við höfum engan sérstakan óskamótherja, en við erum ánægðar að hitt rússneska liðið komst ekki áfram. Við erum ekki að fara aftur til Rússlands og við erum ánægðar með það."

„Við munum taka hverju sem er," sagði hún að lokum.
Athugasemdir
banner
banner