banner
   mið 11. október 2017 20:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir að Skagamenn hafi rætt við Jón Þór
Jón Þór Hauksson.
Jón Þór Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Þjálfaramál ÍA hafa verið mikið í umræðunni, sérstaklega í dag.

Jón Þór Hauksson, sem stýrði ÍA í síðustu leikjum Íslandsmótsins, ræddi við Fótbolta.net og sagði þar að hann hefði ekkert heyrt frá stjórnarmönnum Skagamanna eftir síðasta leik í Pepsi-deildinni.

„Ég hef ekkert heyrt í forráðamönnum liðsins síðan eftir lokaleik Íslandsmótsins. Þannig að ég tel 100% að ég verði ekki áfram. Ég held að það væri löngu búið að ganga frá því ef það væri í kortunum," sagði Jón Þór við Fótbolta.net í dag.

Jón Þór ræddi síðan við Hjört Hjartarson í Akraborginni og lét þar stór orð falla um stjórnarmenn ÍA.

„Maður hefði viljað sjá staðið betur að þessum málum. Ég er frekar ósáttur við okkar ástkæra félag," sagði hann þar.

„Þeir skoppa í allar áttir og eru eins og silfurskottur um allan bæ, á bak við allar hurðar og láta sig hverfa þegar liðið er í mótlæti," sagði Jón Þór enn fremur og átti þar við stjórnarmenn ÍA.

Fótbolti.net heyrði í Magnúsi Guðmundssyni, formanni knattspyrnudeildar ÍA, í kvöld og fékk álit hans á ummælunum.

„Þetta er hans að tjá sig, ég ætla ekki að tjá mig um hans viðtöl," sagði Magnús um það sem Jón Þór hafði að segja í dag, en hann segir það ekki rétt að það hafi ekki verið rætt við Jón.

„Það er líka búið að tala við Jón Þór. Það er búið að tala við nokkra þjálfara og Jón Þór er þar á meðal."

Háværar sögusagnir eru um að Jóhannes Karl Guðjónsson taki við ÍA en hann stýrði HK í 4. sætið í Inkasso-deildinni í sumar. Jóhannes Karl var eftir tímabilið valinn þjálfari ársins í deildinni af þjálfurum og fyrirliðum.


Athugasemdir
banner
banner
banner