Sóknarbakvörðurinn Kristinn Jónsson var í gær verðlaunaður fyrir að hafa verið stoðsendingahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar í sumar. Verðlaunin voru afhent um leið og bókin Íslensk knattspyrna 2015 var kynnt.
Kristinn er búinn að yfirgefa Breiðablik en hann gekk í raðir norska úrvalsdeildarliðsins Sarpsborg.
„Það er hrikalega gaman að fá viðurkenningu en þessi viðurkenning er fyrir allt liðið. Maður leggur ekki svona mikið upp án þess að hafa góða menn í kringum sig," segir Kristinn sem telur að Breiðablik muni ná að fylla hans skarð.
„Það kemur alltaf maður í manns stað og aðrir stíga upp þegar menn fara. Það hefur alltaf einhver farið út á síðustu fimm árum."
Talsverðar breytingar hafa verið á leikmannahópi Sarpsborg en Kristinn fer út fljótlega á nýju ári.
„Ég er hrikalega spenntur að byrja í byrjun janúar. Síðustu ár hefur liðið alltaf verið að taka skref upp á við þó tímabilið í ár hafi ekki alveg verið eins gott og þeir ætluðu sér. Þeir náðu samt í úrslit í bikarnum en við ætlum að gera betur næsta tímabil," segir Kristinn en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir